Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 14:57:41 (4710)

2001-02-15 14:57:41# 126. lþ. 71.6 fundur 235. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., Flm. GunnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[14:57]

Flm. (Gunnar Birgisson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er allmikill munur á því hvort fólk er með höfuðhlífar eða ekki í þessu. Í frétt sem birtist í breska læknatímaritinu The British Medical Journal í ágúst 1998 kemur fram að samkvæmt slysaskráningu í Hollandi á tíu ára tímabili frá 1987--1996 voru skráð 18 þúsund slys þar sem heilaáverkar komu við sögu. Í 4.300 tilvika urðu slysin í fótbolta, höfuðáverkar (Gripið fram í.) í 3.400 tilvikum í reiðmennsku og 70 tilvikum í hnefaleikum. Ég er ekki með fjöldann en það er 60 sinnum meira (KolH: Hver er fjöldinn sem ...?) í knattspyrnunni. (Gripið fram í.)

Í annarri grein í sama tímariti er talað um dauðsföll. Þrjú voru af völdum hnefaleika frá 1986--1992, 77 vegna mótoríþrótta, 67 vegna flugíþrótta, 54 vegna fjallaklifurs --- það ætti þá að banna það --- og 28 vegna hestaíþrótta. Það ætlar sér enginn að detta af hestbaki. Engin íþrótt er algerlega hættulaus eða meiðslalaus. (Forseti hringir.) Við erum að tala um íþrótt þar sem er minnst slysatíðni og er heilbrigð og góð fyrir aga og líkamlegt atgervi.