Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 14:59:53 (4712)

2001-02-15 14:59:53# 126. lþ. 71.6 fundur 235. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[14:59]

Ásta Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Því er haldið fram að ólympískir hnefaleikar séu mjög skaðlegir heilsu manna og við erum búin að heyra það margoft í dag. Ég lagði mig sérstaklega eftir því að fara í gegnum fagrit þegar ég var að undirbúa mig undir þessa umræðu og líka þá sem var í fyrra. Ég get lesið hérna í gegnum ákveðinn bunka niðurstöðu úr þessum tímaritum. Hérna er ein grein sem birtist í British Journal of Sport Medicin 1994. Hún greinir frá tíu rannsóknum sem taka til 289 áhugamannaboxara og þar er um að ræða taugasálfræðilegar rannsóknir og verið að skoða áhrif á iðkunar íþróttarinnar á viðkomandi.

Þar kemur fram að niðurstaðan sé, eftir að hafa rýnt í þessar tíu rannsóknir, að engin merki fundust um neitt taugasálfræðilega afbrigðilegt við skoðun á þessum 289 áhugamannahnefaleikurum.