Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 15:03:18 (4715)

2001-02-15 15:03:18# 126. lþ. 71.6 fundur 235. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[15:03]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt sem hv. þm. segir, að landlæknir kom með þessar sjö rannsóknir til sögunnar þegar fjallað var um málið hér í fyrra. Á sama hátt koma aðrir með aðrar upplýsingar. Þeir sérfræðingar sem komu til hv. heilbrn. í fyrra gátu t.d. nefnt til rannsóknir sem voru mjög öflugar vegna þess að þar voru samanburðarhópar. Ég fullyrði hins vegar að í þeim rannsóknum sem landlæknir vitnar til eru ekki hreinir samanburðarhópar, örugglega ekki í þeim öllum. Það kom fram í umfjöllun heilbrn. í fyrra að margt skorti í mörgum af þessum rannsóknum, þ.e. að jafnítarlegar rannsóknir væru gerðar á samanburðarhópunum.

Í umsögn heilbr.- og trn. frá því í fyrra var getið sérstaklega um rannsókn sem gerð var í Vínarborg á síðasta áratug. Þar voru bornir saman tveir hópar ungra manna og þar er sannarlega rannsókn sem mér finnst tilefni til frekari umræðna. Þar var samanburðarhópur.