Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 15:08:36 (4720)

2001-02-15 15:08:36# 126. lþ. 71.6 fundur 235. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[15:08]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Ég er mjög sammála síðasta ræðumanni um að það er óþolandi að verja svo löngum tíma í boxið hvað eftir annað. Þetta er þriðja lotan sem við tökum.

Ég var einn af flutningsmönnum síðast. Ég greiddi þessari tillögu atkvæði mitt. Núna get ég ekki hugsað mér að vera einn af flutningsmönnunum. Við eyddum öllum þessum tíma, við fórum allan þennan feril síðast og erum byrjuð aftur á nýjan leik. Það hefur ekki komið eitt einasta nýtt atriði fram. Það er verið að tala um glófa og höfuðpúða og hvað þetta heitir nú allt saman. Við fórum í gegnum þessa umræðu á síðasta þingi. Ég er ákveðinn í því, komi til atkvæðagreiðslu um þetta mál, að þá ætla ég að sitja hjá. Við erum að eyða dýrmætum tíma þingsins með hliðsjón af því sem er á dagskrá í dag. Þetta er í þriðja skiptið sem við tökum þetta mál upp áður en málið fer í nefnd. Hugsið þið ykkur.

Þess vegna segi ég: Mér er nóg boðið og ég mun sitja hjá við afgreiðslu þessa máls komi til þess.