Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 15:10:03 (4722)

2001-02-15 15:10:03# 126. lþ. 71.6 fundur 235. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[15:10]

Ásta Möller:

Virðulegi forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka til máls í þessari umræðu. Ég gerði það hins vegar vegna þess að andstæðingar frv. röðuðu sér á mælendaskrá til að ræða málið. Það verður að vera eitthvert jafnvægi á þessari umræðu. Þess vegna stend ég hér upp í dag með langa ræðu.

Hér er enn á ný fjallað um frv. um að lögleiða ólympíska hnefaleika hér á landi. Frv. tekur til þess að leyfilegt verði að kenna, sýna og keppa í ólympískum hnefaleikum svo og að heimilt verði að nota glófa og önnur tæki sem ætluð eru til þjálfunar í íþróttinni. Frv. gerir einnig ráð fyrir að Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands setji reglur um ólympíska hnefaleika. Þetta frv. breytir engu um að áfram verður bannað að kenna, sýna og keppa í atvinnumannahnefaleikum. Það stendur ekki til að afnema bannið við ástundun atvinnumannahnefaleika. Það á að vera alveg ljóst. Það er enginn vilji til þess, hvorki meðal hv. þm. á hinu háa Alþingi né annarra.

Þetta frv. er lagt fram öðru sinni. Það var fellt með eins atkvæðis mun á vorþingi fyrir ári. Það hefur farið fram töluverð umræða í þjóðfélaginu frá því sl. vor sem skýrt hefur málið. Nú ætti t.d. flestum að vera ljóst um hvað málið fjallar, hver munurinn er á ólympískum hnefaleikum og atvinnumannahnefaleikum. Eins og ég sagði rétt áðan þá er enginn áhugi fyrir því hér á landi að afnema bann við iðkun atvinnumannahnefaleika.

Ísland er eina landið sem bannað hefur ólympíska hnefaleika. Þeir eru hvergi annars staðar í heiminum bannaðir. Í Svíþjóð var þetta skoðað nákvæmlega fyrir nokkrum árum, þar var gerð ítarleg rannsókn sem Karólínska sjúkrahúsið í Stokkhólmi hélt utan um. Niðurstaðan var að slysatíðni og áhætta af iðkun íþróttarinnar væri ekki slík að forsvaranlegt væri að banna hana.

Með hliðsjón af þessu verður að hafa í huga að atvinnumannahnefaleikar eru bannaðir í ýmsum löndum á þessum hnetti. En eins og ég sagði áðan þá eru ólympískir hnefaleikar bara bannaðir hér á Íslandi. Þetta er keppnisgrein á Ólympíuleikum og hún er ýmist kölluð áhugamannahnefaleikar eða ólympískir hnefaleikar. Ég mun nota þau heiti jöfnum höndum. Ég sé ekki hvað hv. þm. eru að tala um þegar rætt er um að verið sé eitthvað að gylla íþróttina með því að kalla hana ólympíska, mér finnst þetta sé jafngilt. Ég sé ekki muninn eða hvort einhver gylling er á öðru og ekki á hinu. Ég mun sem sagt nota þessi heiti jöfnum höndum.

Hnefaleikar sem stundaðir voru hér á landi til ársins 1956, þegar þeir voru bannaðir með lögum á Alþingi, voru atvinnumannahnefaleikar. Ólympískir hnefaleikar hafa þróast á síðustu áratugum og hafa reglur og öryggiskröfur verið hertar til að gæta öryggis þeirra sem stunda íþróttina. Í umsögn Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands um frv. á síðasta vori segir eftirfarandi um þróun íþróttarinnar, með leyfi forseta:

,,Athygli er vakin á því að frá því lög um bann við hnefaleikum voru sett árið 1956 hafa hnefaleikar tekið miklum breytingum og aðskildir hafa verið annars vegar atvinnuhnefaleikar og hins vegar ólympískir hnefaleikar. Ólympískir hnefaleikar eru viðurkennd íþróttagrein af alþjóðaólympíunefndinni og í þeirri íþrótt keppt á Ólympíuleikum og í öllum vestrænum löndum.``

Þá segir einnig í umsögn Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands:

,,Samkvæmt íþróttalögum, nr. 64/1998, er Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands æðsti aðili frjálsrar íþróttastarfsemi í landinu og verður að teljast eðlilegt að ÍSÍ taki um það ákvarðanir hvort og hvaða íþróttagreinar eru löglegar og leyfðar í hinni frjálsu íþróttastarfsemi.``

Í umsögn sinni um frv. á síðasta vorþingi mælir framkvæmdastjórn ÍSÍ með því að frv. verði samþykkt. Í umsögn samtakanna kemur einnig fram að heilbrigðisnefnd sambandsins styður að bann við ólympískum hnefaleikum verði afnumið og telur að þessi tegund hnefaleika sé ekki skaðlegri en margar aðrar íþróttir.

Þeir sem lýst hafa sig mótfallna því að lögleiða ólympíska hnefaleika vísa yfirleitt til reynslu eða þekkingar, nema hvort tveggja sé, reynslu og þekkingar sinnar í atvinnumannahnefaleikum. Er það í raun ekki furða því að sýningar í sjónvarpi frá hnefaleikakeppi hafa yfirleitt verið af keppni atvinnumanna. Rannsóknir hafa sýnt að atvinnumannahnefaleikar geta leitt til alvarlegs heilsuskaða til skemmri eða lengri tíma og eru dæmi þess að fólk hafi látist eftir keppni í íþróttagrein.

[15:15]

Atvinnumannahnefaleikar eru bannaðir í mörgum löndum heims, þar á meðal á Norðurlöndum. Reglur atvinnumannahnefaleika og áhugamannahnefaleika eru afar ólíkar. Reglur áhugamannahnefaleika hafa að markmiði að gæta öryggis keppandans og taka keppnisreglur og öryggisbúnaður mið af því.

Mig langar til þess að vísa í Guðjón Vilhelm Sigurðsson, þjálfara í ólympískum hnefaleikum, en hann hefur lýst muninum á þessum tveim tegundum hnefaleika þannig, með leyfi forseta:

,,Ólympískir bardagar fara fram undir reglum áhugamanna. Þeir eru styttri, fjórar lotur í stað tólf og hver lota er tvær mínútur í stað þriggja. Síðan er keppt með höfuðhlífar og punghlífar. Hanskarnir eru með þreföldu varnarlagi þannig að skaðsemi höggsins á að vera sem allra minnst. Þessar varnarhlífar eru nægilega góðar til þess að draga íþróttina niður um einhverja tugi sæta á listanum yfir hættulegustu íþróttir heims. Þú færð stig í ólympískum hnefaleikum fyrir hittni þannig að í hvert skipti sem þú hittir á ákveðið svæði færðu stig. Þessi svæði eru bara á framhlið keppendanna þannig að engin stig eru gefin fyrir að slá menn bak við eyrun eða í þau. Þannig að það er letjandi frekar en hitt að setja kraft í höggið. Þetta er frekar spurning um hraða.

Best er að rétt snerta keppinautinn og forða sér fljótt til baka í vörnina. Því ef þú setur kraft í höggið hægir þú á þér og safnar refsistigum þar sem keppinauturinn fær svo gott tækifæri til þess að hitta þig. Tíðni rothögga er því innan við 1% í áhugamannahnefaleikum. Þannig að þessi íþrótt sem við erum að kynna núna er allt önnur en sú sem var bönnuð árið 1956.``

Þá hefur einnig komið fram hjá sama manni, með leyfi forseta:

,,Keppni í ólympískum hnefaleikum verður að fara fram undir eftirliti íþróttasambands þess lands sem hún á að fara fram í. Hver iðkandi verður að gangast undir stranga læknisskoðun fyrir og eftir hverja keppni. Verði iðkandi fyrir meiðslum verða að líða 60 til 90 dagar þar til hann má keppa aftur, eftir því hvers eðlis meiðslin eru, að því tilskildu að hann standist læknisskoðun.``

Það er því töluvert læknisfræðilegt eftirlit með þessari íþrótt og meira en maður þekkir af öðrum tegundum íþrótta.

Að banna ólympíska hnefaleika þýðir mismunun í íþróttaiðkun hér á landi. Aðrar sjálfsvarnar- og árásaríþróttir eru stundaðar hér. Ljóst er að á sama tíma og ólympískir hnefaleikar eru bannaðir hér á landi þá eru sem sagt aðrar svipaðar tegundir íþrótta stundaðar. Í þessu felst mikil mismunun sem hv. þm. hljóta að gera sér grein fyrir og taka á. Sem dæmi má nefna skylmingar, judó, karate og nýjar greinar eins og kickbox og tae kwon do. Það má benda á að einn af fimm íþróttamönnum ársins á Akureyri 1999 fékk viðurkenningu einmitt fyrir árangur í tae kwon do.

Þá vil ég nefna að heilbrigðisyfirvöld í Ástralíu nefna kickbox í sama flokki og atvinnumannahnefaleika en setja sig ekki upp á móti ólympískum hnefaleikum. Þetta er athyglisvert því að kickbox er stundað hér á landi. Ástralir setja það á bás með atvinnumannahnefaleikum. Við leyfum það en ekki ólympíska hnefaleika. Kickbox leyfir að sparkað sé í höfuð mótstöðumannsins og í viðkvæmustu hluta líkamans.

Um það hefur verið rætt að læknar hafa barist gegn hnefaleikum. Barátta þeirra í Bandaríkjunum og Bretlandi hefur aðallega beinst að því að banna atvinnumannahnefaleika, enda eru þeir leyfðir í báðum þessum löndum. Núna hafa bandarískir læknar snúið við blaðinu eða tekið aðra stefnu því að þeir hafa tekið ákvörðun um að vinna með íþróttayfirvöldum í þeim tilgangi að lækka tíðni áverka og slysa í atvinnumannahnefaleikum. Þeir hafa því snúið af þessari braut og ákveðið að vinna að því að fólk slasist ekki í atvinnumannahnefaleikum og viðurkenna að þetta sé eðlilegur hlutur og vilja sem sagt vinna með íþróttayfirvöldum að bæta hlutina.

Farið hefur fram töluverð umræða á síðasta ári sem hefur skýrt enn betur hvað íþróttin standi fyrir. Ég tel að eftir alla þá umræðu sem hefur farið fram frá síðasta vori ætti flestum að vera ljóst hvað þessar tvær tegundir hnefaleika eru ólíkar og að ekki stendur til að leyfa atvinnumannahnefaleika hér á landi. Það sem verið er að fara fram á er að Alþingi samþykki að leyfa íþróttamönnum að stunda íþrótt sem rannsóknir sýna að felur í sér síst meiri hættu á slysum en aðrar íþróttir og, sem rök hafa verið færð fyrir, að íþróttina sé hægt að nota sem tæki til að virkja tiltekna einstaklinga og nota reglur íþróttarinnar til þess að aga þá. Þannig sagði í umsögn meiri hluta menntmn. síðasta vor að í máli gesta hefði komið fram að uppeldisleg rök séu fyrir lögleiðingu íþróttarinnar þar sem sumir hópar þjóðfélagsins gætu haft gott af iðkun íþróttarinnar og þeim aga sem þar gildir.

Þeir sem eru andsnúnir lögleiðingu ólympískra hnefaleika hafa haldið fram þeim sjónarmiðum að lögleiðing þeirra muni leiða til þess að atvinnumannahnefaleikar komi í kjölfarið, að íþróttin sé hættuleg, hún leiði til aukins ofbeldis í þjóðfélaginu og þeir telja að siðferðileg rök mæli gegn lögleiðingu íþróttarinnar. Ég hef hugsað mér að fjalla örlítið um þessi sjónarmið.

Þeir segja í fyrsta lagi að lögleiðing ólympískra hnefaleika muni leiða til þess að atvinnumannahnefaleikar komi í kjölfarið. Við vitum að hnefaleikar eru stundaðir hér á landi og með því að lögleiða ólympíska hnefaleika er ástundun íþróttarinnar sett í ákveðinn farveg. Við vitum ekki hvers konar hnefaleikar það eru sem verið er að stunda hér á landi í alls konar íþróttasölum. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir vísaði í blað Menntaskólans í Reykjavík til ungra drengja sem eru að stunda þessa íþrótt algerlega eftirlitslaust án þess að þekkja nokkuð til reglna og auðvitað blóðga þeir hver annan. Þeir hafa ekki nokkurt hundsvit á hvað felst í íþróttinni og hvaða siðareglur þar eru í gangi. Það eru sem sagt margir sem bara spinna af fingrum fram með því að prófa sig áfram og þeir fá engar leiðbeiningar og hafa enga þekkingu og sjálfsagt eru þeir bara að horfa á hvernig þetta er gert í atvinnumannahnefaleikum í sjónvarpinu. Með því að lögleiða ólympíska hnefaleika erum við að koma böndum yfir ástundun íþróttarinnar og hún verður stunduð undir eftirliti og reglum sem Íþrótta- og ólympíusamband Íslands setur. Með því erum við að tryggja að íþróttin sé stunduð á öruggan máta og koma í veg fyrir hugsanleg slys.

Varðandi þær fullyrðingar þeirra sem eru mótfallnir þessu frv. að þetta muni leiða til að atvinnumannahnefaleikar fylgi í kjölfarið þá vil ég benda á að ÍSÍ hefur lýst sig mótfallið því að lögleiða atvinnumannahnefaleika. Lög sem banna atvinnumannahnefaleika, sem eru í gildi í dag, munu standa áfram. Ég fullyrði að ekki er vilji fyrir því hjá hv. þingmönnum á hinu háa Alþingi að gera breytingu þar á.

Annað sem hefur verið fullyrt er að íþróttin sé hættuleg. Í vor fór ég í gegnum mjög margar rannsóknir um þetta atriði. Ég ætla ekki að endurtaka þetta hér, en ég gæti það náttúrlega ef eftir því yrði leitað. Hins vegar hef ég lagt mig eftir því að fylgjast með þeim nýju rannsóknum sem hafa birst í læknislegum fagtímaritum frá því að þessi máli voru rædd fyrir ári þannig að ég hef fengið nýjar niðurstöður og nýjar rannsóknir. Flestar þessara rannsókna staðfesta að heilsufarsleg áhrif áhugamannahnefaleika séu óveruleg m.a. á heilastarfsemi. Í sumum atriðum sem meta heila- og taugastarfsemi stóðu iðkendur áhugamannahnefaleika sig þó verr en aðrir, t.d. varðandi fínhreyfingar handa. Þar stóðu þeir sig verr og sjálfsagt má það rekja til þess að þeir notuðu hnefann í þessari íþrótt til þess að berja, m.a. á púða eða hvað það nú heitir.

Ýmsar rannsóknir benda til þess að þeir sem stunda áhugamannahnefaleika hafi meiri félagsþroska og hafi meiri stjórn á skapi sínu en samanburðarhópur --- þetta kom mjög á óvart --- þótt þeir að öðru leyti séu almennt minna menntaðir og hafi atvinnu af einfaldari störfum.

Ég rakti áðan í andsvari við ræðu hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur umsögn landlæknis. Ég ætla ekki að endurtaka hana hér en þar kom m.a. fram að hann vísaði í sjö rannsóknir sem styðja það sem ég var að segja rétt áðan. Hins vegar til þess að gæta sannmælis verður líka að koma fram að í umsögn landlæknis kom fram að ákveðin hætta er á augnaáverkum við ástundum íþróttarinnar og við getum ekki horft fram hjá því og verðum þá að taka ákveðna ákvörðun í tengslum við það.

Í ólympískum hnefaleikum er notaður ýmis varnarbúnaður til að koma í veg fyrir áverka og slys af völdum íþróttarinnar. Ég ætla ekki að telja það upp. Ég held að öllum sé það kunnugt í dag. En það sem mér finnst hins vegar ástæða til að taka sérstaklega fram er hlutverk dómara vegna þess að þegar við horfum á hnefaleikakeppni í sjónvarpi þá er það yfirleitt hlutverk dómara að dæma leikinn og skera úr. En í þessari íþrótt er hlutverk dómara fyrst og fremst að gæta öryggis leikmanna og skerast í leikinn en ekki telja stig eins og í atvinnumannahnefaleikum. Í umsögn ÍSÍ segir eftirfarandi um slys af völdum ólympískra hnefaleika, með leyfi forseta:

,,Ólympískir hnefaleikar eru ekki skaðlegri heldur en margar aðrar íþróttir ef litið er til meiðsla og slysa vegna íþróttaiðkunar. Í landinu eru stundaðar ýmsar aðrar íþróttagreinar, svo sem tae kwon do, karate og júdó (sem allar hafa verið samþykktar og iðkaðar síðan bann við hnefaleikum var sett) sem allar fela í sér bardaga og átök milli tveggja keppenda líkt og í hnefaleikum.``

Í umsögn heilbrigðisráðs ÍSÍ sem er undirrituð af Birgi Guðjónssyni lækni kemur fram að ráðið styðji að bann við ólympískum hnefaleikum verði afnumið. Í umsögn ráðsins kemur m.a. fram, með leyfi forseta:

,,Hættumat í hnefaleikum verður ekki slitið úr samhengi við slys í öðrum greinum íþrótta. Heildaryfirlit er ekki til staðar yfir slysahættu í íþróttum en við lauslega athugun má benda á annan tug almennings- og keppnisíþrótta þar sem hafa orðið dauðaslys erlendis sem og hérlendis fyrir utan þau slys sem geta krafist sjúkrahúsvistar.``

Síðan segir í umsögn heilbrigðisráðs ÍSÍ, með leyfi forseta:

,,Svo virðist sem ólympískir hnefaleikar hafi verið bannaðir vegna hættu á atvinnuhnefaleikum sem aldrei hefur staðið til að hefja hér. Ef banna ætti þær greinar íþrótta þar sem alvarleg slys hafa orðið hefði þurft að byrja á mörgum öðrum eins og vísað er til að ofan.``

Í grein eftir Guðjón Vilhelm sem birtist í Morgunblaðinu 9. nóvember sl. segir, með leyfi forseta:

,,Árið 1998 gerði öryggisnefnd íþrótta- og tómstundamála Bandaríkjanna rannsókn á tíðni meiðsla í íþróttum og viti menn, ólympískir hnefaleikar urðu númer 71 á listanum, langt fyrir neðan nær allar þær íþróttir sem við þekkjum hér á landi. Í ljósi þessara niðurstaðna hafa margar þjóðir tekið upp á því að hvetja til iðkunar á ólympískum hnefaleikum.``

Einnig segir í sömu grein:

,,Ef farið er í víðara samhengi og teknar allar keppnir sem fram fóru í ólympískum hnefaleikum í Bandaríkjunum frá 1997--98 þá komu þar upp 98 tilvik þar sem meiðsl kröfðust læknishjálpar.``

Þetta eru ótrúlegar tölur, 98 tilvik, meiðslaatvik í keppnum þar sem þátttakendur voru um 23 þúsund og keppnirnar voru jafnframt yfir 23 þúsund talsins.

Þeir sem eru mótfallnir lögleiðingu ólympískra hnefaleika hafa haldið því fram, að siðferðilega rangt sé að leyfa ólympíska hnefaleika því að það sé rangt að berja annan mann. Ég er sammála því. Það er rangt að berja annan mann. Hins vegar er rangt að setja ólympíska hnefaleika í þetta samhengi. Það er ekki hægt að neyða neinn til að taka þátt í tiltekinni tegund íþrótta og ná árangri í henni. Í íþróttum taka menn þátt af fúsum og frjálsum vilja.

Íslensk orðabók skilgreinir íþrótt sem leikni, fimi, snilld, list og sem kerfisbundnar æfingar til að þjálfa líkamann, oft til að ná einhverjum tilsettum árangri, setja met og þess háttar. Það er ekki siðferðilega rangt að tveir menn kjósi að stunda tiltekna íþrótt sem felur í sér leikni, fimi, snilld og að ná tilsettum árangri ef reglur eru þess eðlis að öryggis sé gætt. Þá má hins vegar setja siðferðilegt spurningarmerki við hve langt má ganga til að hafa vit fyrir fólki, hve langt er hægt að ganga í forræðishyggju gagnvart athöfnum fólks. Þeir sem stunda þessa íþrótt gera það samkvæmt eigin vali og þeim er kunnugt hvað felst í því. Fólki er kunnugt um að hægt er að slasa sig í íþróttinni sem er meira en hægt er að segja um margar aðrar íþróttir. Til dæmis hefur því ekki verið haldið á lofti að fótbolti sé hættuleg íþrótt en nýjar rannsóknir benda til þess að skallaboltar geti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér og hefur verið líkt við hættu á heilaáverka atvinnuhnefaleikara, en bæði fótboltamenn og atvinnuhnefaleikarar fá högg á höfuðið sem er óvarið, annars vegar af bolta sem kemur með miklum hraða og hins vegar af glófa mótleikara í hnefaleikum. Hvorugur notar höfuðhlíf í íþróttinni.

Ég vildi líka ræða þær fullyrðingar að lögleiðing ólympískra hnefaleika muni leiða til aukins ofbeldis í samfélaginu sem er nóg fyrir. Ég sé hins vegar að tíma mínum er að ljúka þannig að ég ætla bara að snúa mér að því að vísa í grein eftir Þórð Sævarsson sem birtist í Morgunblaðinu 18. maí sl. sem ber heitið ,,Sviptur réttinum til að velja og hafna``, og lokaorð greinar hans eru, með leyfi forseta:

,,Það eina sem ég fer fram á eru sjálfsögð réttindi, að ég fái sjálfur að ráða því hvort ég stundi ólympíska hnefaleika eða ekki.``