Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 15:30:06 (4723)

2001-02-15 15:30:06# 126. lþ. 71.6 fundur 235. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[15:30]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég ætla ekki að halda hér langa ræðu eða fara ítarlega yfir efnið. Það hefur þegar verið gert í dag, bæði af þeim sem tala fyrir því að áhugamannabox verði leyft og eins þeim sem eru á móti því að við breytum núgildandi lögum og reglum.

Í raun finnst mér ekki að við ættum að vera að fjalla um þetta frv. hér í dag eða á þessu kjörtímabili. Það var farið ítarlega yfir hliðstætt frv. á síðasta vetri, ítarlega farið yfir málið í menntmn. og ítarlega farið yfir málið í heilbr.- og trn. Málið var útrætt, afgreitt hér í þinginu og fellt. Mér er sagt, af þeim sem eru þingreyndari en ég, að þegar mál hefur farið í gegnum nefnd, verið afgreitt og fellt, þá teljist siðferðilega rétt að geyma það þar til kemur að nýju kjörtímabili, þ.e. ef ekkert nýtt kemur fram í málinu. Frv. er nú flutt óbreytt og ekkert nýtt í málinu, hvorki frá þeim sem tala fyrir því né á móti. Ég sé þess vegna ekki að við þurfum að eyða miklum tíma í málið og í raun er það sannfæring mín að við ættum ekki að vera að ræða þetta í dag.

Þetta mál tók mikið af tíma þingsins í fyrravetur og mikinn tíma í heilbr.- og trn. Það var haft í flimtingum í nefndinni að við ræddum ekki um annað en box og tanngarða. Það tók hvað mestan tíma nefndarinnar. Ekki að þessi mál séu óverðugri en önnur en í þetta fór mikill tími.

Ég vil líka leiðrétta að það sé einhver misskilningur hjá okkur, sem tölum gegn því að lögleiða áhugamannabox hér á landi, að við þekkjum ekki mun á áhugamannaboxi og atvinnumannaboxi. Ég held að okkar skilningur sé alveg ljós, það er margbúið að fara yfir mismuninn. Það er margbúið að fara yfir reglurnar, yfir hlífðarbúnaðinn og í hverju þessi munur sé fólginn. Eftir sem áður er ég jafnsannfærð, ekkert hefur komið fram sem breytir þeirri skoðun minni og alls þingflokks Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, að við eigum ekki að breyta þeirri stefnu sem við höfum í dag. Við eigum að standa föst á banni við áhugamannaboxi.

Það er slysatíðni í öllum íþróttum. Hún er mismunandi og mismikil áhætta í mismunandi íþróttagreinum, það vitum við. Slysin í áhugamannaboxi eru eftir höfuðhöggin, þá sérstaklega augnskaðarnir. Yfir þetta hefur margoft verið farið þó erfitt sé að sýna fram á hversu miklu meiri áhætta er að stunda áhugamannabox fremur en ýmsar aðrar greinar. Bæði eru rannsóknir misvísandi og eins virðist vera erfitt að finna rannsóknir á þessum slysum. Við höfum upplýsingar og niðurstöður rannsókna sem hafa mismunandi niðurstöður en slysin eru eftir sem áður alvarleg þegar þau verða.

Íþróttin sem hér um ræðir er í eðli sínu bardagaíþrótt en ekki sjálfsvarnaríþrótt. Mér finnst miklu nær, eins og hér hefur komið fram í dag, að skoða samsvarandi íþróttir eins og kickbox sem Ástralir eru nú, eftir því sem upplýsingar hafa komið fram um, að skoða hvort ekki sé rétt að banna vegna slysahættu. Mér finnst miklu nær, talandi um að skoða áhættuþætti og annað, að við skoðum fleiri greinar og kickboxið þá sérstaklega með tilliti til þess að banna iðkun.

Hér hefur mikið verið talað um jafnræðisregluna og því verði að leyfa þessa íþrótt enda sé ekki meiri slysahætta af henni en öðrum. Við erum hins vegar laus við þessa íþróttagrein. Það eru margir sem öfunda okkur af því. Það hefur líka komið fram að það er verið að endurskoða reglur Ólympíunefndarinnar. Þegar við fórum yfir þetta í fyrra kom a.m.k. fram að verið væri að athuga hvort ekki ætti að hætta við keppni í þessari íþrótt. Ég held að við ættum að láta þetta mál niður falla þar til ljóst verður hvar þessi íþrótt stendur varðandi Ólympíuleikana. Því hefur verið haldið fram að þetta sé göfug íþrótt þar sem hún sé keppnisíþrótt á Ólympíuleikunum.

Í mínum huga tengist þetta ekki bara áhættuþáttum íþróttagreinarinnar, sé hún rétt stunduð með réttum hlífðarbúnaði, dómurum og þjálfurum, heldur eðli íþróttarinnar, þ.e. bardagaeðlið, að berja á öðrum. Mér finnst að við ættum öll að leggja okkur fram við að reyna að draga úr ofbeldi og ofbeldisdýrkun. Ég held að það sé ekki að ástæðulausu að lögreglan í Reykjavík hefur áhyggjur af því að ef við innleiðum þessa íþróttagrein þá geti hún rutt brautina fyrir atvinnubox. Ég held að við ættum að leyfa okkar ungu íþróttamönnum að njóta vafans og vera laus við þann skaða sem þessi íþrótt getur valdið. Við ættum frekar að reyna að einhenda okkur í að draga úr öllu því sem eykur ofbeldi og ofbeldisdýrkun hér á landi.