Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 15:38:00 (4724)

2001-02-15 15:38:00# 126. lþ. 71.6 fundur 235. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., DSigf
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[15:38]

Drífa J. Sigfúsdóttir:

Herra forseti. Hér er fjallað um hnefaleika. Ég veit að það er vinsælt og skemmtun í hugum margra að horfa á hnefaleika en mér finnst merkilegt að líkja þessari svokölluðu íþrótt við aðrar íþróttagreinar, við íþróttagreinar yfir höfuð. Ég fæ ekki séð að það sé íþrótt að lemja andstæðinginn. Ég fæ ekki skilið að það sé efni til þess að standa að keppni. Ég tel að það útskýri að mörgu leyti hvers vegna Alþingi ákvað á sínum tíma að taka sérstaklega á hnefaleikum og setja lög varðndi þá. Það er að vissu leyti sérstakt og því eðlilegt að þeir sem eru áhugasamir um hnefaleika vilji láta taka málið upp af því hve sérstakt það er. Ég held að þar sem Alþingi tók þessa ákvörðun þá sé eðlilegt, þegar málið er lagt fram á ný, að þingmenn segi skoðun sína á því.

Mér virðast mörg læknisfræðileg rök hníga að því að eðlilegt sé að banninu verði fram haldið. Ýmsar tölur sem þingmenn hafa minnst hér á benda í misjafnar áttir. Mér finnast hins vegar mikilvæg þau rök sem fram komu frá Læknafélagi Íslands og, með leyfi forseta, vil ég vitna hér í eina grein úr bréfi félagsins til menntmn. 23. mars árið 2000, en þar segir:

,,Hnefaleikar eru hættuleg íþrótt. Ólíkt öðrum íþróttum er markmið íþróttarinnar að valda líkamstjóni hjá andstæðingi. Hnefaleikar valda aukinni tíðni af varanlegum heilaskaða og geta dregið þátttakendur til dauða.``

Mér finnst að þegar um er að ræða fagfólk eins og í Læknafélaginu, formaður Læknafélagsins sendir slíkt bréf fyrir hönd þessa félags og þeir hafa einmitt sérþekkingu á læknisfræðilegum rökum, sé erfitt annað en að taka mark á þeim þegar við ræðum um slys og tjón af völdum hnefaleika. Mér finnst eðlilegt að við hlustum á rök fagmanna okkar. Ég leggst því gegn þessu frv.

Mér finnst líka að það séu ekki aðeins læknisfræðileg rök gegn þessu heldur einnig siðferðisleg og uppeldisleg. En áður en ég lýk máli mínu um Læknafélagið vil ég minna á að í bréfi þess kemur fram að í samanburðarhópi í austurrískri rannsókn, þar sem um var að ræða 25 einkennalausa einstaklinga og 25 sem í samanburðarhópi höfðu tekið þátt í 40 keppnum í hnefaleikum, sýndu 76% einhver meiðsl vegna þessarar þátttöku. Það er mjög hátt hlutfall. Ég hef ekki trú á því að Læknafélagið mundi senda frá sér slíkar upplýsingar nema það hefði allgóð rök fyrir því, enda fylgja tilvitnanir með í bréfi þeirra.

Burt séð frá læknisfræðilegum rökum sem menn hafa rifist um hér lengi dags þá er líka þessi siðferðilega spurning: Hvað á ég að segja við barnið mitt? Á ég að segja: Þú mátt ekki lemja systkini þín, ekki bróður þinn, ekki systur þína, ekki skólafélaga en gjörðu svo vel, farðu og lemdu einhvern í hnefaleikum. Það er í góðu lagi. Hvernig í ósköpunum er hægt að rökstyðja með siðferðilegum rökum að suma megi lemja samkvæmt vissum reglum en ekki aðra? Í mínum huga má ekki lemja, það er mjög einfalt. Mér finnst þetta siðferðilega rangt og þess vegna er ég mótfallin þessu.

Ég skil vel að hér komi fram ýmsar rannsóknarniðurstöður með og á móti. Við munum líka að lengi voru lögð fram rök með og móti tóbaki af því að það er jú kannski auðvelt að kaupa skoðanir. Þær eru líka til sölu. Ég man eftir því að sem krakki las ég bók þar sem stóð að tóbak stöku sinnum væri nú ekki skaðlegt líkamanum. Þessi bók hét Bókin um mannslíkamann og átti að vera fræðandi efni um mannslíkamann og heilsufar. Sú skoðun hefur nú snarlega breyst og ég hygg að þetta hafi ekki verið nægilega vel rannsakað en það eru hins vegar nægilegar rannsóknir að mínu mati sem styðja að þetta sé ekki í lagi. Siðferðileg, uppeldisleg og læknisfræðileg rök byggð á rannsóknum benda til að þetta sé óskynsamlegt. Þess vegna tók Alþingi þessa ákvörðun og þess vegna held ég að Alþingi eigi að standa við þá ákvörðun óbreytta.