Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 15:45:56 (4727)

2001-02-15 15:45:56# 126. lþ. 71.6 fundur 235. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., Flm. GunnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[15:45]

Flm. (Gunnar Birgisson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil benda hv. þm. á að við erum þátttakendur í Ólympíuleikum og höfum verið það um langan tíma frá því að við hlutum sjálfstæði og þar á undan líka. En frá 1904 hafa ólympískir hnefaleikar verið grein á Ólympíuleikum. Við erum eina landið í heiminum sem bannar þá. Og skiptar skoðanir eru meðal lækna um þetta mál. Hér hafa menn verið að tala um höfuðhögg og heilaárekstra og annað slíkt.

Ég var að horfa á knattspyrnuleik í gærkvöldi þar sem varnarmennirnir höfðu nóg að gera við að skalla boltann. Eru til sannanir um að heilaáverkar hafa orðið vegna þess arna í knattspyrnu. Ef fólk ætti að vera samkvæmt sjálfu sér ætti það að leggja fram tillögu um að banna íþróttir eins og tae kwon do, fótbolta og annað slíkt. En það er ekki um slíkt að ræða. Þetta er heilbrigð íþrótt, en meginmálið er þetta: Við erum eina landið sem bönnum þessa íþrótt og við verðum að hafa það val að geta stundað þá íþróttagrein sem við viljum. Búið er að margsanna að þessi íþróttagrein er ekki hættulegri en aðrar íþróttagreinar nema síður sé. Þegar fólk er að tala um að verið sé að taka þetta upp aftur, þá vil ég benda á að komnar eru fram nýjar rannsóknir, það eru alltaf að koma nýjar rannsóknir á hverju ári sem styðja málið. Þess vegna var málið lagt fram aftur.