Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 15:48:03 (4729)

2001-02-15 15:48:03# 126. lþ. 71.6 fundur 235. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., KVM
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[15:48]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Hér er verið að flytja mál sem flutt var á síðasta þingi og var fellt. Nú er það endurflutt í ljósi einhverra nýrra upplýsinga sem ég hef ekki alveg heyrt nákvæmlega hverjar eru, en það er allt í lagi. Við búum í lýðræðisríki og menn mega koma með sömu tillögurnar aftur og aftur og láta fella þær aftur og aftur. Kannski verður þetta samþykkt núna vegna þess að komin eru ný og sterk rök í málinu. Ég tel það reyndar ekki vera rök að við eigum að samþykkja eitthvað af því að allir aðrir hafi gert það. Íslendingar hafa margt sem aðrir í heiminum hafa ekki.

Mig langar til að segja frá minningu sem ég á um það þegar ég var rétt byrjaður að lesa og stauta fram úr ýmsum fréttum í blöðum. Ég gleymi þessu aldrei. Annaðhvort í Vísi eða Morgunblaðinu var mynd af tveim boxurum. Myndin var af þeim báðum og annar lá við einhverja kaðla og hinn var að berja en það dapurlegasta við þetta var að talið var að sá sem lá utan í köðlunum væri látinn. Áhorfendahópurinn vissi það náttúrlega ekkert og hrópaði og gargaði í öllum æsingnum og hrifningunni við að horfa á þennan göfuga slag --- að því er margir telja slíkt vera. Þetta orkaði sterkt á mig og mér fannst þetta mjög ljótt og þetta var ömurlegt. Þetta hafði mjög djúp áhrif.

En þetta er allt annað, segja menn, vegna þess að nú erum við að tala um ,,ólympíska hnefaleika``, og tala um þá sem göfuga og mikla íþrótt. En eðli íþróttarinnar er ekkert annað en það að verið er að berja andstæðinginn, þann sem verið er að keppa við. Það er árásin, snilld árásarinnar sem er það mikilvægasta í íþróttinni. Það er ekki vörnin þó að menn dáist að því hversu vel menn geta varist og borið hönd fyrir höfuð sér, þá er vörnin samt ekki meginmálið í íþróttinni. Það er að geta slegið hinn niður.

Mér finnst það einnig segja heilmikið um þetta mál þegar menn eru að tala um að það verði séð um að svo og svo mikið af læknum og hjúkrunarliði muni ganga úr skugga um að sá sem er barinn komist ekki til þess að slást aftur mjög fljótlega, innan ákveðinna daga var talað um.

Hjá mér hefur sú spurning vaknað hversu margir flutningsmanna þessa máls mundu vilja lögleiða atvinnumannahnefaleika. Það er svo sem önnur saga en vekur samt ákveðna forvitni.

Í dag er sagt að ofbeldi í landi okkar fari vaxandi og árásarhneigð hafi aukist, ekki einungis hjá fullorðnum heldur líka hjá yngra fólki og margar fréttir eru birtar um það árlega í blöðum og annars staðar. Ég held að lögleiðing þessarar íþróttar, ólympískra hnefaleika, muni leiða til þess að börn og unglingar muni fá aukinn áhuga fyrir því að taka þátt í slagsmálum og að ybba hnefana hvert framan í annað. Það er mín skoðun. Ég tel að við þurfum ekkert að auka slíkt í landinu.

Hvar er barnið þitt? Það er á íþróttaæfingu. Það er að æfa fótbolta, hástökk eða er í frjálsum. Mér þætti ankannalegt að svara spurningunni: Það er í boxi, það er að æfa box. Það rímar ekki við hugsun og tilfinningu mína. Ég held að það eigi við um marga fleiri að vilja ekki sjá börnin sín vera í þeirri íþrótt sem heitir ólympískir hnefaleikar. Foreldrar vilja að því er ég tel mikið frekar að börnin þeirra séu í öðrum uppbyggilegri íþróttum. Skrýtið er að hugsa um það að barn manns komi af íþróttaæfingu niðurbrotið af því að það var lamið niður og því gekk alls ekki vel á boxæfingunni. Það eru svo margar hliðar á þessu sem mér finnst vera þess eðlis að við eigum ekki að lögleiða ólympíska hnefaleika. Síðan þegar búið væri að lögleiða þá, skyldi þá ekki einnig blunda í flutningsmönnum löngun til að koma með annað frv. um lögleiðingu atvinnuhnefaleika? En ég ætla ekki að dæma um það því auðvitað veit maður ekki hvað aðrir hugsa. Fólk segir náttúrlega oft ekki nema lítið af því sem það er að hugsa. Það er nú bara þannig með mannskepnuna.

Skoðun mín er sem sagt sú að ekki eigi að lögleiða og leyfa ólympíska hnefaleika hér á landi.