Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 16:12:16 (4735)

2001-02-15 16:12:16# 126. lþ. 71.6 fundur 235. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., Flm. GunnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[16:12]

Flm. (Gunnar Birgisson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hélt að þessi þingsalur og þingið væri einmitt til að ræða mál.

Það var með ólíkindum hvernig hún sneri hérna öllu öfugt upp á allt í þessu, hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir. Bannið við hnefaleikunum er bann við atvinnumannahnefaleikum. Það eru nokkur atriði sem þingmaðurinn verður að átta sig á. Það er alveg rétt, það er óháð aldri hvernig þetta er stundað en meiningin er að Íþróttasamband Íslands setji reglur þar að lútandi. Það eru menn sem stunda þetta og hafa stundað þetta og ég þekki ég einn sem er núna áttatíu og tveggja ára og stundar þetta enn þá og er við hestaheilsu og þetta er líkamshreyfing hans og æfing.

Það vantaði ekki kjarnyrtar lýsingar: ,,Rothögg gefur flest stig.`` Ef þingmaðurinn hefði hlustað á mig bara fyrir nokkrum mínútum: Rothögg gefur ekki neitt extra stig. Það er bara eins og venjulegt högg, ekkert extra stig (Gripið fram í.) eða flest stig. Það gefur stig eins og önnur högg sem hitta. Og það eru illyrmisleg högg. Innan við 1% af bardögum í ólympískum hnefaleikum enda með að andstæðingurinn er sleginn í gólfið og það er verið að gera svona mikið úr því. Það er verið að gera mikið úr því. Hún talar um að flytja frv. og banna karate o.fl. Það er fyrir þá sem vilja hafa vit fyrir þjóðinni, að hún megi ekki stunda íþróttir nema þær séu ekki hættulegar að þeirra mati.

Ég ætla ekki að flytja það því að ég vil að þjóðin geti valið um hvaða íþróttir hún stundar sjálf. En það eru þessir forsjárhyggjuþingmenn sem ættu að koma þessi frumvörp ef þeir vilja vera sjálfum sér samkvæmir.

Vörnin í ólympískum hnefaleikum er jafnmikilvæg og sóknin. Það er það sem ég var að segja áðan. Það er auðvelt fyrir hv. þm. að reyna að snúa út úr þessu.