Óhefðbundnar lækningar

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 16:38:27 (4741)

2001-02-15 16:38:27# 126. lþ. 71.7 fundur 173. mál: #A óhefðbundnar lækningar# þál., ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[16:38]

Ásta Möller:

Virðulegi forseti. Hér er til umfjöllunar þáltill. um óhefðbundnar lækningar þar sem lagt er til að skipuð verði nefnd til að gera úttekt á stöðu óhefðbundinna lækninga hér á landi og bera hana saman við stöðu mála annars staðar á Norðurlöndum, Bretlandi og í Bandaríkjunum. Í þáltill. er nánar tilgreint um verkefni nefndarinnar.

Ég fagna þáltill. Hún er tímabær. Í rauninni er dálítið sérstakt að slík tillaga skuli ekki hafa komið fram á hinu háa Alþingi, svo mikilvægt sem málefnið í rauninni er. Mikil umræða hefur farið fram um óhefðbundnar læknin gar hér á landi en hún hefur meira farið fram manna á milli eða meðal og innan tiltekinna hópa en ekki verið í svo miklum mæli opinber. Segja má að umræða um þessi mál hafi verið mun meira opinber erlendis en hérlendis, hún hafi frekar verið undir borðum hér á landi.

Ýmsar fagstéttir hafa fjallað um þetta að undanförnu og ég man eftir að hjúkrunarþing Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga fjallaði sérstaklega um þetta málefni á þingi sínu síðasta haust. Sem dæmi um hvað meira að segja fagstéttir eru feimnar við þetta efni, þá tók það félagið tvö ár að taka ákvörðun um hvort það treysti sér að fara í slíka umræðu og vildi að umræðan á vettvangi og í þjóðfélaginu þróaðist meira áður en hjúkrunarfræðingar færu að tala um þetta sín á milli á opinberu þingi.

Erlendis eru margir viðurkenndir skólar sem bjóða upp á nám í óhefðbundnum meðferðarformum og í ýmsum löndum er það viðurkennt sem framhaldsnám heilbrigðisstétta. Sem dæmi um hve umræðan er orðin opin erlendis hef ég í höndunum skýrslu frá bresku lávarðadeildinni sem gerði úttekt á þessum málum og birtist skýrslan á síðasta ári. Síðan las ég það í dönskum dagblöðum núna í vikunni að danska heilbrigðisráðuneytið væri með í undirbúningi að taka saman skýrslu um kortlagningu á starfsemi óhefðbundinna meðferðarforma í heilbrigðisþjónustu þar í landi. Við erum því á svipuðu róli þar.

Hugtakið óhefðbundnar lækningar hefur verið kallað á ensku ýmist Alternative Medicine eða Complimentary Medicine. Ýmsar þýðingar hafa verið á þessu hugtaki hér á landi, m.a. hefur það verið þýtt sem hjálækningar, einnig hefur það verið kallað stoðmeðferð og það er kannski enn þá betra orð því að með því er verið að segja að þetta sé meðferð sem kemur ekki í staðinn fyrir hefðbundnar lækningameðferðir heldur frekar að hún vinni jafnhliða hefðbundnum lækningum.

En hvað er það sem telst til óhefðbundinna aðferða eða meðferða? Hjálækningar, ég nota það orð í þessari ræðu, eru aðferðir og kenningar til sjúkdómsgreiningar og meðferðar sem eru almennt ekki kenndar í hefðbundum læknaskólum og almennt ekki notaðar af viðurkenndum sérfræðingum í læknisfræði. Þetta er svona gróf skilgreining. Sumar tegundir hjálækninga eru á mörkum hefðbundinna lækninga og óhefðbundinna. Sem dæmi um það eru hnykklækningar og nálarstungulækningar sem byggja á vísindalegri þekkingu og oft jafnvel einnig stundaðar af fólki með hefðbundna menntun innan heilbrigðisvísinda. Sjúkranuddarar og nuddarar eru af sama toga. Reyndar er það svo að bæði sjúkranuddarar og hnykklæknar eru viðurkenndar heilbrigðisstéttir hér á landi og nálarstungumeðferð er viðurkennd ef hún er framkvæmd af viðurkenndri heilbrigðisstétt eins og læknum og hjúkrunarfræðingum. En ég veit að umræða er í gangi um hvort ekki eigi að viðurkenna það að aðrir með annars konar grunnmenntun fái að stunda hana með blessun heilbrigðisyfirvalda.

Einnig er það umhugsunarefni í þessu sambandi að einmitt þessar stéttir sem eru á mörkum hefðbundinna og óhefðbundinna lækninga, þ.e. hnykklækningar, sjúkranudd og nálarstungumeðferðir eru allt saman starfsgreinar sem karlar hafa verið frumkvöðlar að. Mér finnst það svolítið umhugsunarefni að það þurfi karlmenn innan stétta sem frumkvöðla til að fá viðurkenningu. Þessu sló niður í huga minn í morgun og ég varpa því fram í umræðuna af hverju þessar mýkri aðferðir, meðferðir sem eru kannski meira kenndar við konur, skuli ekki fá sömu viðurkenningu og þær aðferðir þar sem nota þarf ákveðin tæki og ákveðin karlmennska er í kringum.

Af öðrum tegundum óhefðbundinna lækninga má nefna liðlækningar, höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun, vöðvaslökun, nudd, ilmmeðferð, svæðanudd, pólameðferð, grasalækningar, smáskammtalækningar, nálarstungur, sem ég var búin að nefna áður, punktaþrýsting, shiatsu, sállækningar, dáleiðslu sem reyndar er viðurkennt meðferðarform innan heilbrigðisþjónustu hér á landi, heilun, reiki, rafsegulbylgjugreiningu, kristalla- og gimsteinameðferð, ljósa- og hljóðlækningar svo eitthvað sé nefnt. Aðferðirnar eru margar og virkni þeirra er margvísleg án þess að ég ætli að fara nánar út í það og margar þessara aðferða eru til þess fallnar að auka vellíðan fólks og stuðla að slökun og hvíld sem er undirstaða þess að lækningamáttur líkamans sjálfs fái að verka.

Í ræðu hv. frsm., Láru Margrétar Ragnarsdóttur, kom fram að talið er að u.þ.b. 25% landsmanna hafi notað óhefðbundnar lækningar á 12 mánaða tímabili. Þetta sýnir rannsókn Rúnars Vilhjálmssonar í þessu máli og helmingur þeirra leitaði til slíkra meðferðarforma vegna verkja í mjóbaki. Ýmsar ástæður eru taldar upp fyrir því af hverju fólk leitar til meðferðaraðila utan hins viðurkennda heilbrigðiskerfis. Oft er það vegna þess að hefðbundnar aðferðir duga ekki og fólk vill leita sér lækninga í meðferð sem felur ekki í sér inngrip í líkamann með aðgerðum eða lyfjameðferð. Margir lýsa því að þeir vilji fá persónulegri meðferð og leita þá til aðila sem gefa meiri tíma en heilbrigðiskerfið hefur getað veitt. Einnig tengist það því að fólk hefur meiri tilfinningu fyrir því að það hafi stjórn á lífi sínu og taki virkan þátt í að berjast gegn sjúkdómum, m.a. vegna þess að það hefur sjálft valið meðferðina eða aðferðina og það veitir einnig von þegar hefðbundnar aðferðir hafa brugðist.

Margar þessara aðferða fela í sér meiri snertingu en hefðbundnar læknisaðferðir og mörgum finnst það opna á samskipti og tjáskipti og opni á mannlegri nálgun sem er öllum nauðsynleg. Meðferðin hefur því yfirleitt meiri alhiða áhrif en bara það sem snýr að því að lina sjúkdóminn, oft sálfélagsleg áhrif. Það sem er einnig athyglisvert í þessu er að margir þessara aðila leita til meðferðaraðila án samráðs við lækni sinn. Gerð var m.a. rannsókn á stöðu þessara mála hér af bandarískum lækni og mannfræðingi og kom mjög skýrt fram að það er ákveðið umburðarlyndi innan heilbrigðiskerfisins gagnvart óhefðbundnum lækningum, ákveðið umburðarlyndi sem felst í því að ekki er vísað beint á þessi meðferðarform en það er rætt um þau. Læknar ræða um það við sjúklinga sína að það séu möguleikar. En það eru hins vegar þessir tveir kanalar, að þeir starfi samhliða en allt of lítil tengsl eru þar á milli og það er það sem þarf að skoða sérstaklega.