Óhefðbundnar lækningar

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 17:05:31 (4745)

2001-02-15 17:05:31# 126. lþ. 71.7 fundur 173. mál: #A óhefðbundnar lækningar# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[17:05]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég er meðflm. að þeirri tilögu sem Lára Margrét Ragnarsdóttir hefur fyrst og fremst unnið og má þess vegna til með að leggja hér orð í belg en ég ætla ekki að halda langa ræðu, herra forseti, þess þarf ekki. Ég hef fylgst með umræðunni á skrifstofu minni þar sem ég var með ákveðið verkefni og þessi umræða hefur verið góð. Eins og tillagan liggur fyrir inniheldur hún það sem skiptir máli og greinargerðin er afskaplega skilmerkileg og yfirgripsmikil í raun. Þess vegna er ég mjög sátt við að vera meðflm. að þessu máli.

Það sem skiptir máli er það sem er verið að gera hér í dag og athyglisvert er að þeir ræðumenn sem hér hafa talað hafa verið einróma í áliti sínu, jafnvel ræðumaður sem kemur úr heilbrigðisstétt. Við skulum gera okkur grein fyrir því að mjög margir halda að djúp gjá sé á milli þeirra sem vinna í heilbrigðisgeiranum og hinna sem vinna að óhefðbundnum lækningum. Það er ekki svo. Það er bara djúp gjá á milli þess sem sagt er upphátt á milli þessara tveggja þátta. Það að við flutningsmenn þessarar tillögu flytjum þetta mál hingað inn á þing er ekkert minna en þáttaskil vegna þeirrar þagnar sem ríkt hefur á flestum stöðum um óhefðbundnar lækningar eins og þær eru orðnar ríkur þáttur í því þegar fólk leitar sér hjálpar við heilbrigðisvandamáli. Ég leyfi mér að fullyrða, herra forseti, að ekki finnist sú fjölskylda í þessu landi þar sem einhver fjölskyldumeðlimur hefur ekki farið út í það að leita óhefðbundinna lækninga, annaðhvort þegar annað hefur þrotið eða vegna þess að viðkomandi hefur verið búinn að lesa sér til og áttar sig á að þarna er um aðrar leiðir að ræða en sannarlega mjög færar.

Það er afskaplega þýðingarmikið að nú sé tekið á þessum málum, að heilbrrh. skipi nefnd sem geri úttekt á stöðu óhefðbundinna lækninga og skoði hvað hefur verið að gerast á Norðurlöndunum, í Evrópu og í Bandaríkjunum. Allt þetta er tekið fram í greinargerðinni og ég ætla ekki að endurtaka það hér sem þegar hefur verið sagt. Ég er alveg sannfærð um að það næst samstaða um að afgreiða þetta mál út úr heilbr.- og trn. eftir yfirferð á því og þegar það hefur verið sent til umsagnar og jafnvel einhverjir kallaðir til. Við eigum að gera það, við eigum að láta þetta mál koma til afgreiðslu á Alþingi og ég er alveg sannfærð um að það fái meirihlutastuðning. Ég er alveg sannfærð um að þetta mál eigi meira erindi inn á þing en málið sem við höfum eytt nokkrum klukkutímum í og sem hefur fengið forgang á dagskrá þessa fundar.

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna. Ég er afskaplega ánægð með að vera meðflm. Ég er sannfærð um að þetta mál mun hafa framgang og að það sem hér er að gerast á Alþingi mun valda þáttaskilum bæði í skilningi á, umfjöllun um og því að fólk hafi með opnum huga aðgang að óhefðbundnum lækningum.