Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 17:27:14 (4748)

2001-02-15 17:27:14# 126. lþ. 71.9 fundur 191. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (aldursmörk) frv., Flm. ÁRJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[17:27]

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum. Þetta frv. fjallar um sveigjanleg starfslok. Flm. ásamt þeirri sem hér stendur eru hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir, Jóhanna Sigurðardóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Kristján L. Möller, Sigríður Jóhannesdóttir og Jóhann Ársælsson.

1. gr. frv. hljóðar svo:

,,Á eftir 2. mgr. 33. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að fresta því að veita manni lausn frá embætti allt þar til hann hefur náð 74 ára aldri ef hann óskar þess sérstaklega og almenn skilyrði laga þessara eru því ekki til fyrirstöðu. Mat um það hvort almenn skilyrði laganna séu uppfyllt er í höndum hlutaðeigandi ráðherra. Ákvæði þetta á ekki við um þá sem skipaðir eru tímabundið, sbr. 2. mgr. og 23. gr.``

Í 1. gr. er lögð til sú breyting að heimilt verði að fresta því að veita embættismönnum lausn frá starfi þegar þeir hafa náð 70 ára aldri. Ákvæði þetta gildir aðeins um þá embættismenn sem ráðnir eru ótímabundið eins og kom fram í greininni. Þetta ákvæði felur ekki í sér að heimilt sé að skipa mann í embætti eftir að hann hefur náð 70 ára aldri, enda er hér einungis um að ræða heimild til að fresta því að veita embættismanni sem þegar hefur verið skipaður lausn frá starfi. Ef vafi leikur á um hvort almenn skilyrði laganna séu uppfyllt er gert ráð fyrir að mat um það efni verði í höndum viðkomandi ráðherra.

2. gr. hljóðar svo:

,,Á eftir 2. mgr. 43. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:

Ef starfsmaður óskar þess sérstaklega og almenn skilyrði laga þessara eru því ekki til fyrirstöðu, er heimilt að fresta uppsögn hans allt þar til hann hefur náð 74 ára aldri. Mat um það hvort almenn skilyrði laganna séu uppfyllt er í höndum viðkomandi forstöðumanns.``

Hér er lögð til sú breyting að heimilt verði að fresta uppsögn starfsmanns allt þar til hann hefur náð 74 ára aldri ef hann óskar þess sérstaklega og almenn skilyrði laganna eru því ekki til fyrirstöðu. Ef vafi leikur á um hvort almenn skilyrði laganna séu uppfyllt er gert ráð fyrir því að mat um það efni verði í höndum forstöðumanns viðkomandi stofnunar.

Næstu ár og áratugi mun hlutfall fólks sem komið er á eftirlaunaaldur hækka. Á sama tíma má gera ráð fyrir því að meðalaldur manna hækki og heilbrigði aukist, ekki síst hjá þeim sem eldri eru. Í núgildandi lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins er mönnum gert að hætta störfum í síðasta lagi þegar þeir ná 70 ára aldri. Rökin fyrir þessum reglum voru einkum þau að skapa svigrúm fyrir yngra fólk á vinnumarkaði og draga úr atvinnuleysi. Þessi rök eiga síður við nú og munu missa gildi sitt enn frekar þegar hlutfall eldra fólks í þjóðfélaginu vex. Þetta mun leiða til þess að meiri þörf verður fyrir starfskrafta þessa fólks.

[17:30]

Heilsufar þjóðarinnar hefur farið stigbatnandi undanfarin ár og má ætla að sú þróun haldi áfram. Margir eru við fulla heilsu og með óskerta starfsorku þegar áttræðisaldri er náð og kysu að vinna áfram ef þeir hefðu færi á, en eins og reglurnar eru nú er þessu fólki oft nauðugur einn kostur að setjast í helgan stein, þvert gegn vilja sínum. Engin haldbær rök eru fyrir svo stífum reglum. Af þessum sökum er lagt til í frv. að aldursmörk þau sem í lögunum eru í dag verði rýmkuð á þann hátt að ef starfsmaður óskar þess sérstaklega og almenn skilyrði laganna, þ.e. um nauðsynlega heilbrigði, andlega og líkamlega, standa því ekki í vegi þá megi hann halda áfram störfum þar til hann hefur náð 74 ára aldri.

Hugsanlega mætti rýmka aldursmörkin enn frekar, en áður en það er gert er heppilegt og gagnlegt að sjá hvernig þeirri rýmkun á aldursmörkum sem hér er lögð til verður tekið.

Oft hefur verið erfitt fyrir fólk með fulla starfsorku að hætta störfum. Ég veit mörg dæmi þess að það hafi alveg farið með heilsu fólks að þurfa að hætta störfum. Sérstaklega varð ég vör við það í fyrra starfi mínu í Tryggingastofnun ríkisins þar sem fólk kom oft að leita ráða við starfslok. Þetta var ákaflega erfitt, sérstaklega fyrir karla. Karlmenn tóku þessu oft mjög illa og einnig er vitað að þeir eiga erfitt með að mynda tengsl við aðra og verða oftar einangraðri en konur eftir að starfsævinni lýkur.

Þess vegna eru hér lögð til sveigjanleg starfslok. Ljóst er að það er þörf fyrir þetta vinnuafl. Við höfum þörf fyrir aukna starfskrafta og eigum að nýta okkur starfskrafta þessa fólks þó að það hafi náð 70 ára aldri. Mikilvægt er að það finni að vinnumarkaðurinn vill áfram fá það til starfa og það finni að enn sé þörf fyrir það. Eins og kemur fram í grg. með frv. er einnig ljóst að heilbrigði eldra fólks er sífellt að batna og meðalaldur að hækka.

Nú veit ég, herra forseti, að það er nefnd að störfum um sveigjanleg starfslok en lítið hefur komið út úr henni enn. Þar sem enginn ráðherra er viðstaddur þessa umræðu, sem ég hefði nú gjarnan viljað spyrja út í hvar það nefndarstarf er á vegi statt, þá verð ég að bíða með þær spurningar. Ég hef nú þegar, herra forseti, lagt fram fsp. til hæstv. forsrh. sem er með þessa nefnd á sínum vegum. Ég hef lagt fram fsp. til að spyrjast fyrir um þetta nefndarstarf því að í hátíðaræðum og á landsfundum hafa menn mjög gjarnan rætt um að nauðsynlegt sé að koma á sveigjanlegum starfslokum fyrir eldra fólk og kannski ekki ástæða til að hafa þessa 70 ára reglu í lögum. Fróðlegt væri að fá upplýsingar um það í þinginu.

Lagabreytingin sem lögð er til í þessu frv., herra forseti, er aðeins eitt skref í þá átt að koma á sveigjanlegum starfslokum fyrir alla þannig að sem flestir geti nýtt sér þann rétt að ljúka starfsævinni á þeim tíma sem þeim hentar þannig að þeir geti ráðið því hvort þeir hætta störfum fyrr á starfsævinni eða síðar, eftir því hvað hverjum og einum hentar.

Herra forseti. Ég held að ég hafi gert nokkuð vel grein fyrir þessu frv. Þetta á við um starfsmenn ríkisins, þetta frv. um sveigjanleg starfslok þeirra. Vissulega þarf að taka á þessum málum í fleiri lögum en þetta er eitt skref í áttina. Ég vonast til að þessi mál verði frekar til umræðu í þinginu. Ég býst við að sú umræða muni einnig fara fram þegar hæstv. forsrh. gefur sér tíma til að svara fsp. minni um þetta mál.

Herra forseti. Að lokinni umræðunni um frv. um sveigjanleg starfslok legg ég til að málið fari til hv. efh.- og viðskn.