Staða Íslands í Evrópusamstarfi

Mánudaginn 19. febrúar 2001, kl. 15:17:43 (4753)

2001-02-19 15:17:43# 126. lþ. 72.91 fundur 306#B staða Íslands í Evrópusamstarfi# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 126. lþ.

[15:17]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu þarft að fara reglega yfir stöðu mála hvað varðar tengsl Íslands við Evrópusambandið og við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði erum hvenær sem er tilbúin til slíkra umræðna. Ég kem ekki auga á að nein grundvallarbreyting hafi orðið á samningsbundinni stöðu Íslands hvað þetta varðar frá því að við ræddum málin í vor í tengslum við skýrslu hæstv. utanrrh. eða frá 14. nóv. sl. þegar utanríkismál voru hér á dagskrá og enn fremur munum við væntanlega ræða þau 29. mars nk. þegar utanríkismál eru til umfjöllunar á vormissirinu.

Í aðalatriðum er afstaða okkar sú, og hún er óbreytt, að vænlegra sé fyrir Ísland að gæta hagsmuna sinna án aðildar að Evrópusambandinu en með samningum við það og góðum samskiptum eins og við önnur mikilvæg nágrannalönd og markaðssvæði. Það sem ég held að skipti máli, herra forseti, er að hægt sé eftir atvikum að byggja á einhverjum stöðugleika og einhverri stefnufestu í slíkum samskiptum. Ég vara við því að sköpuð sé óþarfa óvissa um of eða kynt undir vantrú á því að við getum staðið á eigin fótum. Ég verð að segja að mér finnst tónninn í bæði hv. frummælanda og hæstv. utanrrh. óþarflega mæðulegur. Ég held að þetta sé ekki alveg svona voðalega erfitt allt saman eins og menn vilja stundum vera láta.

Síðan er það, herra forseti, atriði í sjálfu sér að menn reyni að hafa þessi skoðanaskipti á sem hreinlegustum grunni. Ég lýsi eftir því að þeir sem eru þeirrar skoðunar að við eigum að ganga í Evrópusambandið komi fram með það sjónarmið með skýrum hætti og tali fyrir því þannig að þeir sem eru annarrar skoðunar geti þá líka flutt rök sín þar á móti. Þannig held ég að við gerum umræðunni, herra forseti, mest gagn og líka með hinu að átta okkur á því eftir atvikum til einhvers tíma í senn á hvaða grundvelli þessi samskipti byggja þannig að við þurfum ekki, ef svo má að orði komast, að vera með þetta dag frá degi í höndunum.