Staða Íslands í Evrópusamstarfi

Mánudaginn 19. febrúar 2001, kl. 15:26:10 (4757)

2001-02-19 15:26:10# 126. lþ. 72.91 fundur 306#B staða Íslands í Evrópusamstarfi# (umræður utan dagskrár), ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 126. lþ.

[15:26]

Árni R. Árnason:

Herra forseti. Samskipti Íslands við Evrópusambandið eru í mótuðum ferli samkvæmt ákvæðum samninga um samskiptin, þar á meðal samningnum um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu sem er einhver fjölþættasti samningur sem Ísland á aðild að um samskipti og viðskipti og sitthvað fleira við önnur ríki. Einkenni þess samnings, sem var algjörlega nýtt, er að hann á að geta þróast og hluti af þeirri þróun gerist í tilskipunum Evrópusambandsins sem önnur aðildarríki að þessu efnahagssvæði, þ.e. EFTA-ríkin Ísland, Noregur og Liechtenstein, taka upp hvert með sínum hætti inn í löggjöf eða reglugerðir, þannig að þær hljóti sama gildi sem stjórnvaldsfyrirmæli í þeim og innan Evrópusambandsins.

Það sem gerst hefur og hér var nefnt er að innan Evrópusambandsins hafa verið gerðar ákveðnar breytingar á stofnanakerfi þess. Vegna þeirra breytinga er nú verið að móta nýjar stofnanir sem koma í stað nefnda eða hlutverka sem áður voru innan framkvæmdastjórnar sambandsins þar sem Ísland hafði samkvæmt samningnum aðild að eða aðkomu að framgöngu þeirra mála.

Það er ekki svo að þetta hafi ekki verið rætt í hv. utanrmn. Alþingis, síður en svo. Þetta hefur komið þar til umræðu og fram hefur komið af hálfu hæstv. utanrrh. að þetta mál er til umfjöllunar meðal sendimanna Íslands gagnvart Evrópusambandinu og á fundum þeirra með fulltrúum sambandsins. Ísland og fulltrúar þess hafa vakið athygli á því að þessar breytingar innan sambandsins hafa bein áhrif á möguleika Íslands og þá annarra EFTA-ríkja til að hafa áhrif á framkvæmd og framgöngu ákvarðana sem þau hafa áður skuldbundið sig til að taka upp. Það er eðlilegt að Evrópusambandið skapi þeim áfram þann rétt sem það hafði skuldbundið sig til. Þetta voru gagnkvæmar skuldbindingar og því er um að ræða framkvæmd Evrópusambandsins á skuldbindingum sem það einnig undirgekkst gagnvart okkur, Noregi og Liechtenstein. Það er einfaldlega eðlilegt að við krefjumst breytinga á þessu þannig að jafnræði megi áfram ríkja en það er mikill misskilningur að þetta mál hafi ekki verið rætt af réttbornum aðilum hér á þingi sem í ráðuneyti.