Staða Íslands í Evrópusamstarfi

Mánudaginn 19. febrúar 2001, kl. 15:35:21 (4761)

2001-02-19 15:35:21# 126. lþ. 72.91 fundur 306#B staða Íslands í Evrópusamstarfi# (umræður utan dagskrár), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 126. lþ.

[15:35]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu sem ég tel að hafi verið afskaplega gagnleg. Í samningaviðræðum á sínum tíma um EES töldu EFTA-ríkin fullnægjandi aðgang að nefndastarfi ESB eina af grundvallarforsendum fyrir því að aðlaga réttarkerfi sitt að innri markaðslöggjöf ESB til að tryggja einsleitni á öllu þessu svæði.

Að sama skapi var enn fremur talið nauðsynlegt, bæði út frá stjórnskipulegum og pólitískum sjónarhóli, að fullnægjandi aðgangur fengist að þeim vettvangi þar sem leikreglur innri markaðarins eru mótaðar. Hér er því um grundvallaratriði að ræða og þess vegna munum við gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að halda stöðu okkar.

Það er hins vegar ekkert nýmæli að staða okkar hefur verið að veikjast á þessum vettvangi. Ég hef lýst því yfir áður og fært fyrir því gild rök. Athygli Evrópusambandsins beinist í vaxandi mæli að þeim ríkjum sem eru að sækja um aðild og þess vegna hefur athyglin gagnvart EFTA-ríkjunum minnkað.

Það hefur verið rætt á milli EFTA-ríkjanna hvort biðja eigi um formlegar viðræður en engin niðurstaða fengist í því sambandi. En um það eru skiptar skoðanir. Margir eru þeirrar skoðunar að ekki sé rétt og ekki líklegt til árangurs að gera það. Ég er hins vegar sammála hv. þm. Margréti Frímannsdóttur að rétt væri að gera það þannig að á það reyndi. Þar fengist tækifæri til að fara yfir allt málið og ræða það í hreinskilni við Evrópusambandið, sérstaklega með það markmið í huga að Evrópusambandið standi við gerða samninga því að þeir hafa skyldur til þess að hafa við okkur samráð þannig að ef við höfum ekki lengur aðgang að nefndum þá verður það samráð að fara fram með öðrum hætti þó að ég geri mér ekki grein fyrir því hvernig þeir hugsa það á þessu stigi.