Könnun á áhrifum fiskmarkaða

Mánudaginn 19. febrúar 2001, kl. 15:38:06 (4762)

2001-02-19 15:38:06# 126. lþ. 72.11 fundur 243. mál: #A könnun á áhrifum fiskmarkaða# þál., Flm. SvanJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 126. lþ.

[15:38]

Flm. (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um könnun á áhrifum fiskmarkaða. Ég hef tvisvar áður flutt tillögu á Alþingi þess efnis að öllum þeim afla sem veiddur er í íslenskri efnhagslögsögu verði landað og hann seldur í gegnum fiskmarkaði. Sú hugmynd hefur verið í fullu samræmi við stefnu sjómannasamtakanna og sömuleiðis ýmissa alþýðusamtaka. Hins vegar varð það niðurstaða mín, herra forseti, að rétt væri, til þess að menn nestuðu sig nú í umræðu um skipulagsmál sjávarútvegsins, ekki bara hvað varðar fiskmarkaði heldur líka aðra hluti, að gerð yrði á því úttekt hvaða breytingar það hefur haft í för með sér að hér voru settir á laggirnar fiskmarkaðir undir 1990. Lögin eru frá 1989.

Í öllu falli varð það niðurstaða mín og þeirra sem að þessari þáltill. standa, sem eru hv. þm. Jóhann Ársælsson, Sighvatur Björgvinsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Sigríður Jóhannesdóttir og Kristján L. Möller, að rétt væri að fara nú fram með þeim hætti eins og segir í tillögutextanum:

,,Alþingi ályktar að fela sjútvrh. að skipa nefnd sem hafi það hlutverk að gera úttekt á gildi fiskmarkaða fyrir íslenskan sjávarútveg og atvinnuþróun. Nefndin afli gagna, beri saman aðstæður og leggi þannig mat á áhrif fiskmarkaða, m.a. með tilliti til:

1. brottkasts,

2. verðmyndunar sjávarafla,

3. tekna útgerðar,

4. tekna sjómanna,

5. sérhæfingar í fiskvinnslu,

6. nýtingar áður vannýttra fisktegunda,

7. umgengni um og frágangs á afla um borð í fiskiskipum,

8. aðgengis fiskvinnslunnar að hráefni,

9. möguleika á nýliðun í fiskvinnslu,

10. erlendra markaða fyrir sjávarafla,

11. erlendra markaða fyrir sjávarafurðir,

12. verðs á útfluttum sjávarafurðum,

13. flutnings á afla innan lands,

14. stöðugleika í fiskvinnslu,

15. byggðaþróunar.``

Herra forseti. Ugglaust væri rétt að taka til fleiri þætti en þessa fimmtán sem í tillögutextanum eru listaðir upp og ekkert á móti því að það verði gert enda segir þar m.a. ,,með tilliti til``. En ég vil aðeins rökstyðja af hverju þessir fimmtán þættir eru teknir til.

Í greinargerð tillögunnar segir:

Þær miklu breytingar sem hafa orðið og verða enn í íslenskum sjávarútvegi eiga m.a. rætur að rekja til tæknibreytinga á sviði fjarskipta og upplýsingastreymis, til tækni og tækja sem leyst hafa mannshöndina af hólmi, til bættra samgangna og möguleika til skjótra flutninga, til fiskveiðistjórnarkerfisins og markaðsvæðingar veiðanna, svo og þess að fiskmarkaðir hafa haslað sér völl á undanförnum árum.

Á fiskmörkuðum eru nú árlega seld um 100 þúsund tonn af bolfiski fyrir um 10 milljarða kr. Flutningsmenn þessarar tillögu eru sannfærðir um mikilvægi fiskmarkaða fyrir þróun sjávarútvegs á Íslandi og telja því mikilvægt að gerð sé vönduð úttekt á helstu álitamálum sem fram hafa komið í umfjöllun um fiskmarkaði og mikilvægi þeirra.

Við umræður á Alþingi um fiskmarkaði og þá hugmynd að allur fiskur veiddur á Íslandsmiðum verði seldur eða verðlagður á fiskmörkuðum hafa margvísleg sjónarmið komið fram. Og síðan er, herra forseti, farið yfir helstu rök sem fram hafa komið í umræðunni bæði með og á móti. Þau eru listuð upp í grg. og ég mun víkja að þeim síðar eftir því sem tilefni gefst til. En ég ætla aðeins, herra forseti, að rökstyðja þá fimmtán þætti sem til eru teknir og við teljum að nefndin ætti sérstaklega að afla gagna um og bera saman og leggja mat á áhrif fiskmarkaðanna út frá.

Það fyrsta sem er nefnt hér, herra forseti, er brottkast. Við þekkjum þá miklu umræðu sem reglulega gýs upp um brottkast og þær deilur sem uppi hafa verið um hversu mikið það er, og þá ekki síður hitt hvernig beri að bregðast við. Það hefur verið skoðun okkar í Samfylkingunni að laða ætti menn til réttrar breytni, ef svo má að orði komast, gefa ætti mönnum kost á því að koma með allan afla að landi. Hér áður fyrr, áður en fiskmarkaðir urðu til var það einfaldlega svo að ekki var markaður fyrir allar þær tegundir sem kunnu að koma um borð í fiskiskip og menn hirtu ekki allan afla, eins og það var orðað í þá tíð. Nú gerum við hins vegar kröfu til þess að menn hirði allt sem nýtanlegt er og við vitum að markaður er fyrir nánast allt sem um borð í fiskiskip kemur og menn geta selt í gegnum fiskmarkaði það sem þeir áður töldu að ekki væri markaður fyrir vegna þess að til er orðin vinnsla í landinu sem hefur náð að sérhæfa sig í vinnslu margra þeirra tegunda sem áður voru ekki taldar nýtanlegar eða ekki seljanlegar. Þess vegna er mikilvægt, herra forseti, að það sé skoðað í rauninni og því lyft hvaða áhrif fiskmarkaðir hafa haft á það að menn geti komið með allan afla að landi.

Næstu þrír þættir, þ.e. verðmyndun sjávarafla, tekjur útgerðar og tekjur sjómanna, eru síðan atriði sem eru afskaplega mikilvæg. Við höfum upplifað það á undanförnum árum að sjómenn hafa aftur og aftur farið í verkföll vegna verðmyndunar sjávarafla vegna þess að þeir hafa talið að hún væri ekki með þeim hætti að samrýmdist lögum sem um það gilda eða kjarasamningum sem þeir hafa talið bæði sig og útgerðina bundna af.

Það er mjög mikils virði fyrir þróun sjávarútvegsins að þær deilur sem staðið hafa um verðmyndun sjávarafla verði leystar með farsælli hætti en gert hefur verið hingað til. Þau meðul sem menn tóku til og lögbundu til að lenda síðustu kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna hafa ekki dugað eins og menn þó bundu vonir við. Það er því ljóst að þessi atriði verða áfram í deiglunni.

Næst, herra forseti, vil ég taka til 8. og 9. lið sem eru aðgengi fiskvinnslunnar að hráefni og möguleikar á nýliðun í fiskvinnslu. Það hefur verið svo þegar fjallað er um íslenskan sjávarútveg að menn hafa fyrst og fremst horft til fiskveiðistjórnarkerfisins, fyrst og fremst horft til þess hvort kvóti sé í viðkomandi byggðarlagi, hvort skip í viðkomandi byggðarlagi hafi kvóta. Hins vegar sjá menn það fljótt þegar það landslag er skoðað að það eitt ræður ekki úrslitum um hvort fiskvinnsla og þar með atvinna er fyrir landverkafólk á staðnum. Það eru aðrir hlutir sem þar virðast ráða úrslitum og nýlega var rifjað upp í umræðunni að á þeim stöðum þar sem atvinnuleysi fiskverkafólks er einna mest í dag er staðan ekki sú að ekki sé nægjanlegur kvóti eða nægjanlegur fiskur komi að landi, heldur er um annars konar vandamál að ræða.

[15:45]

En við erum sannfærð um að það er mjög mikilvægt að fiskmarkaðir gegni áfram því hlutverki að gera aðgengi fiskvinnslunnar að hráefni sem beinast og best vegna þess að ef málum er þannig fyrir komið að fiskvinnslan á aðgang að hráefni í gegnum fiskmarkaði, þá er það ekki eins mikilvægt að útgerð með kvóta sé staðsett alls staðar um landið. Það er aðgengið að hráefninu til vinnslu sem máli skiptir þegar við erum að tala um landvinnslu. Skipin eru hins vegar færanleg eins og við þekkjum og landa afla sínum mun víðar en í sinni heimahöfn og sjá sér oft og einatt hag í því að haga hlutum með öðrum hætti en þeim að afla sé landað í þeirri vinnslu sem er í byggðarlagi þeirra.

Ég ætla að lokum, herra forseti, að nefna þrjá síðustu liðina, lið 13 um flutning afla innan lands, lið 14 um stöðugleika í fiskvinnslu og lið 15 um stöðugleika í byggðaþróun. Þessi þrjú atriði eru nátengd þeim sem ég áður nefndi um aðgengi fiskvinnslunnar að hráefni og möguleika á nýliðun í fiskvinnslu.

Það er alveg ljóst að afli er fluttur fram og til baka um landið nú sem fyrr en þó líklega í meiri mæli nú en nokkru sinni áður. Þetta er gert vegna þess að menn hafa komist að þeirri niðurstöðu að betra væri að sérhæfa sig með því að kaupa afla á mörkuðum en með því að fara sjálfir í útgerð og þurfa síðan --- eigum við að segja að velja úr þeim afla sem um borð í fiskiskipið kemur. Menn hafa komist að þeirri niðurstöðu að það væri býsna farsælt, bæði fyrir nýliðun í fiskvinnslu og til að geta hafið fiskvinnslu, að fara inn á markaði og kaupa fisk jafnvel þó að flytja þurfi hann landshluta á milli og það er líka svo að í þeirri fiskvinnslu sem treystir fyrst og fremst á markaði, þar hafa menn auðvitað leitað og fundið þann stöðugleika sem þeir þurfa með því að kaupa hráefni víða að af landinu.

Fiskmarkaðir hafa klárlega haft áhrif á byggðaþróun í þá veru að þar sem menn hafa viljað vera með öfluga fiskvinnslu hafa menn átt þennan aðgang að hráefni sem hefur verið geysilega mikilvægt. Hitt er svo annað mál að menn hafa auðvitað kvartað undan því að á meðan ekki fer meira hráefni á markaðinn, þá sé verðið óhæfilega hátt og það verður þá væntanlega skoðað í tengslum við þá vinnu sem við ætlumst til að hér verði farið í í framhaldi af samþykkt þessarar tillögu ef af verður.

Ljóst er, herra forseti, að samstarf um allt land með nýjustu fjarskiptatækni hefur gert kleift að koma á viðskiptum hvar sem skip eða verkendur eru og þetta er auðvitað mjög mikilvægt. Þannig hafa fiskmarkaðir skapað tilverugrundvöll fyrir mörg fyrirtæki sem hafa sérhæft sig með tilliti til ákveðinna markaða. Þetta hefur auðvitað haft ákveðin áhrif á fiskvinnsluna í landinu. Hér hafa orðið til aðilar sem hafa sýnt fram á að til eru markaðir sem eru tilbúnir að borga mun hærra verð fyrir afurðir en við þekktum áður á meðan við vorum með útflutning afar miðstýrðan og vinnsluna þá í leiðinni. Auðvitað hefur þessi virkni markaðanna með aflann einnig haft það í för með sér að sú vinnsla er orðin verðmætari, menn eru farnir að vanda sig og reyna að gera betur, enda þótt það sé skoðun þeirrar sem hér stendur að enn megi gera betur í þeim efnum.

Herra forseti. Ég er að segja að viðhorf vinnslunnar hefur breyst. Hún er orðin meðvitaðri um markaðinn almennt séð. Það er dálítill munur á því en áður var þegar menn tóku í rauninni bara við fyrirmælum um hvað þeir ættu að framleiða og í hve miklu magni.

Menn hafa líka haldið því fram að ef fiskmarkaður hefði ekki komið til hefði landvinnslan farið enn frekar halloka fyrir sjóvinnslunni en orðið hefur. Menn kvarta gjarnan undan því að vinnslan í landi og þar með atvinna verkafólks í landi hafi farið mjög halloka fyrir sjóvinnslu en þeir eru til sem vilja halda því fram að ef ekki hefði verið fyrir tilkomu fiskmarkaða, þá hefði þetta orðið mun verra, ef má nota það orð, en þó er.

Menn benda gjarnan á að í fiskveiðistjórnarkerfi okkar sé það þannig að menn fái ekki aðeins veiðileyfi, menn eru ekki aðeins að fá heimild til að nýta auðlindina til veiða, og það ókeypis í mörgum tilfellum og megi síðan selja öðrum aðgang að þessari auðlind, heldur geti þeir þannig ráðstafað óveiddum fiski að vild eins og staðan er í dag. Þeir hafi einnig ráðstöfunarvald yfir aflanum og geti þar með ráðstafað vinnslumöguleikunum áfram. Stundum hefur það verið gagnrýnt að fullkomlega skorti öll liðamót í þetta kerfi.

Athyglisvert er, herra forseti, að horfa til þess hvernig við höfum skipulagsmálin í sjávarútvegi, hvernig við viljum hafa skipulagsmálin í kringum nýtingu þessarar helstu náttúruauðlindar okkar, með hliðsjón af því hvaða niðurstöðu menn hafa komist að raun um þegar þeir horfa til þess hvernig þeir vilji gera kerfið sem hagkvæmast þegar orka og nýting hennar, sala og dreifing er annars vegar. Þar eru menn að leita að kerfi þar sem gegnsæi er í viðskiptum, þar sem samkeppnisaðstæður eru skapaðar á öllum viðskiptaliðamótum og þar sem menn horfa til þess að gera það mesta og besta úr hlutum fyrir þjóðarbúið í heild sinni. Það er fróðlegt að bera þetta saman, herra forseti, og við munum eflaust gera það betur síðar í umræðunni. Ég vil a.m.k. gjarnan koma að því vegna þess að ég álít að þar sé í rauninni verið að feta sig á braut sem hlýtur að eiga við um fleiri auðlindir.