Könnun á áhrifum fiskmarkaða

Mánudaginn 19. febrúar 2001, kl. 16:19:20 (4768)

2001-02-19 16:19:20# 126. lþ. 72.11 fundur 243. mál: #A könnun á áhrifum fiskmarkaða# þál., Flm. SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 126. lþ.

[16:19]

Flm. (Svanfríður Jónasdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil hv. þm. þannig að ef um væri að ræða aðlögun þá væri hann til viðræðu um að sömu reglur giltu fyrir alla þá sem fá veiðiheimildir í íslenskri fiskveiðilögsögu, þ.e. að þeir hefðu ekki sjálfir ráðstöfunarrétt yfir þeim afla sem að landi kemur, hvorki til að setja í gáma né heldur hugsanlega setja í óhagkvæmari vinnslu en hægt væri að setja hann í ef hann færi um markað og menn kepptu þar um hann á þeim forsendum að þeir gætu gert úr honum enn þá verðmætari varning.

Þetta með grásleppubóndann er auðvitað dálítið sérstakt dæmi en við sem höfum talað fyrir því að allur afli fari um fiskmarkaði höfum ekki eingöngu gert það til þess að jafna aðstöðu fiskvinnslu í landinu og til að gefa þeim hæfustu kost á því að ná sér í aflann heldur höfum við ekki síður hugað þar að samningum sjómanna og að skapaður yrði friður á milli sjómanna og útvegsmanna. Þá þurfum við auðvitað ekki að hafa stórar áhyggjur af þeim sem ekki gera slíka samninga, t.d. grásleppubóndanum sem væntanlega þarf eingöngu að komast til ráðs við sjálfan sig og fjölskyldu sína um hvernig hann hagar sínum málum, enda grásleppan undir annarri löggjöf en lögunum um stjórn fiskveiða. Það er alveg sérmál en það getum við rætt síðar, ég og hv. þm.

Ég var að velta upp þessu með landvinnsluna og hvort það væri skoðun þingmannsins að við ættum að flækja kerfi okkar enn frekar og leyfa landvinnslunni að eiga kvóta. Það hefur auðvitað lengi verið viðurkennt að það eru jú skipin sem sækja aflann. Á þeirri forsendu hafa þau fengið veiðiréttinn. Menn hafa séð það fyrir sér að ef veiðirétturinn yrði settur yfir á fiskvinnsluna þá þyrfti hún að bjóða veiðina út og þá erum við komin, eins og ég sagði áðan, í algjörlega nýjan fasa með samskipti sjómanna og útvegsmanna, eða sjómanna og fiskvinnslueigenda. Það væri því áhugavert að fá fram skoðun þingmannsins á þessu atriði, hvort hann telur að það yrði til bóta að við færum með þeim hætti í málin.