Könnun á áhrifum fiskmarkaða

Mánudaginn 19. febrúar 2001, kl. 16:21:42 (4769)

2001-02-19 16:21:42# 126. lþ. 72.11 fundur 243. mál: #A könnun á áhrifum fiskmarkaða# þál., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 126. lþ.

[16:21]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að sveitarfélög og þess vegna líka fiskvinnslufyrirtæki ættu að geta eignast veiðiheimildir eða aðgang að fiskinum sem slíkum. Ég er því afdráttarlaust þeirrar skoðunar.

Hins vegar er ég ekki afdráttarlaust þeirrar skoðunar að allur fiskur eigi skilyrðislaust að fara á markað. Ég þekki til ýmissa fjölskyldufyrirtækja, minni útgerða, sem stunda veiðar og vinna síðan aflann í landi. Ég get ekki séð sérstakan tilgang í að slíkur fiskur yrði að fara á markað og fjölskyldufyrirtæki eða minni útgerðir yrðu síðan að kaupa aflann á markaði. Ég tel að algildar reglur varðandi það sé mjög erfitt að setja.

Hitt er alveg hárrétt hjá hv. þm. að kjör sjómanna eiga að vera jöfn og örugg og ekki háð því hvernig fiskinum er landað. Þau eiga fyrst og fremst að vera háð gæðum og magni þess fisks sem komið er með að landi.