Könnun á áhrifum fiskmarkaða

Mánudaginn 19. febrúar 2001, kl. 16:42:49 (4774)

2001-02-19 16:42:49# 126. lþ. 72.11 fundur 243. mál: #A könnun á áhrifum fiskmarkaða# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 126. lþ.

[16:42]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að Vestfirðingar eru í vaxandi mæli að nýta sér þá möguleika sem markaðirnir bjóða upp á og hafa þá verið að auka vinnslu sína á ferskum fiski sem er fluttur út beint í flugi. En það er náttúrlega samt svo, og hv. þm. er þá um leið að viðurkenna að þetta hafi ekki verið svo, að þetta er að þróast núna þannig að mín fullyrðing er út af fyrir sig ekkert röng.

Ég þekki ágætlega mörg fyrirtæki á Vestfjörðum, t.d. Hraðfrystihúsið Gunnvör --- það á reyndar fiskvinnsluna í Súðavík, Frosta sem er hluti af fyrirtækinu --- sem er eitt af örfáum fyrirtækjum í dag í sjávarútvegi sem er að skila nokkuð þokkalegum árangri í rekstri síðasta árs. Það er virkilega ánægjulegt að Hraðfrystihúsið Gunnvör skuli hafa náð þessum árangri meðan önnur fyrirtæki sem hafa verið að sýna afkomutölur á undanförnum mánuðum eða vikum hafa því miður sýnt mjög slæma útkomu sum hver.

Ég fagna því eins og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson þegar vel tekst til á Vestfjörðum. Ég skal vera fyrstur manna til þess að fagna því. Hvað varðar markaðina þá er náttúrlega ljóst að einhver trygging þarf að vera. Menn þurfa að geta haft það sæmilega tryggt að einhver fiskur sé á markaði þegar þeir ætla að vinna. En það er samt sem áður aldrei alveg hægt að tryggja neitt í þeim efnum. Auðvitað ræður framboð og eftirspurn og að vera fyrstur, en það er líka hægt að bjóða í fiskinn úti á sjó um leið og verið er að veiða hann. Það er allt svo galopið í dag. Þegar við hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson vorum á sjó saman hér áður fyrr, á Páli Pálssyni, þá tíðkaðist ekki svona frjálsræði í verðlagningu afla.