Kjarasamningar opinberra starfsmanna

Mánudaginn 19. febrúar 2001, kl. 17:31:29 (4781)

2001-02-19 17:31:29# 126. lþ. 72.10 fundur 209. mál: #A kjarasamningar opinberra starfsmanna# (aðild að stéttarfélagi) frv., DSigf
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 126. lþ.

[17:31]

Drífa J. Sigfúsdóttir:

Herra forseti. Mig langar að ræða aðeins um það frv. til laga sem hér er á dagskrá og fjallar um rétt manna til að vera í félagi, þ.e. í raun og veru um félagafrelsi. Ég tek undir það með hv. þm. Pétri H. Blöndal að kveðið er á um þetta í stjórnarskrá lýðveldisins, í lögum nr. 33 frá 1944.

Það eru ekki svo mörg ár síðan en þó nokkur að farið var með mál til útlanda til að fá úr þessu skorið. Það mál varðaði Bifreiðastjórafélagið Frama þar sem maður nokkur gekk í félagið og fékk leyfi til að aka leigubifreið. Þegar hann var búinn að fá starfsleyfið þá gekk hann úr félaginu og neitaði að greiða gjöldin.

Þá kom að því að samgrn. felldi niður leyfi hans til að aka leigubifreiðinni. Hann vildi ekki una úrskurði samgrn. þannig að málið endaði fyrir dómstólum. Þrátt fyrir að þessi einstaklingur hafi undirgengist það og skrifað undir að hann skyldi fara í einu og öllu eftir lögum og samþykktum félagsins og greiða sín félagsgjöld þá varð niðurstaða meiri hluta Hæstaréttar í þessum dómi að atvinnuréttindin væru ríkari en sú kvöð að vera í félagi og hér væri félagafrelsi. Einnig var farið með þetta mál fyrir dómstóla erlendis þar sem dæmt var í því og það hefur síðan haft áhrif á félagafrelsi hér á landi. Eftir þetta var stjórnarskránni breytt. Það var ekki inni það ákvæði, herra forseti, sem nú er komið inn í 74. gr., það var a.m.k. öðruvísi orðað, en 1. og 2. mgr. 74. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Rétt eiga menn á að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi, þar með talin stjórnmálafélög og stéttarfélög, án þess að sækja um leyfi til þess. Félag má ekki leysa upp með ráðstöfun stjórnvalds. Banna má þó um sinn starfsemi félags sem er talið hafa ólöglegan tilgang, en höfða verður þá án ástæðulausrar tafar mál gegn því til að fá því slitið með dómi.

Engan má skylda til aðildar að félagi. Með lögum má þó kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra.``

Í ljósi þessa og í ljósi áðurnefnds hæstaréttardóms sem vakti mikla athygli þá held ég að full ástæða sé til þess að menn fari mjög vel ofan í saumana á því hvort þetta standist stjórnarskrána. Ég þekki það ekki en mér finnst hins vegar mikilvægt að menn fari alveg ofan í saumana og leiti til margra aðila til að kanna hvort þetta standist. Ég er bara hreint ekki viss um það.