Kjarasamningar opinberra starfsmanna

Mánudaginn 19. febrúar 2001, kl. 17:39:04 (4783)

2001-02-19 17:39:04# 126. lþ. 72.10 fundur 209. mál: #A kjarasamningar opinberra starfsmanna# (aðild að stéttarfélagi) frv., DSigf (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 126. lþ.

[17:39]

Drífa J. Sigfúsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Til að það valdi ekki misskilningi þá vil ég taka fram að ég var áðan engan veginn að draga úr eða reyna að brjóta aftur samstöðu launafólks sem ég tel afar mikilvæga. Ég var aðeins að vekja athygli á hæstaréttardómnum og úrskurði í málinu og velta því upp hvernig þessi lög stæðust.

Ég vil hins vegar ítreka, til þess að ekki valdi misskilningi, mikilvægi stéttarfélaga. Ég hef eins og mjög margir aðrir séð að þar sem stéttarfélögin eru veik þar er líka aðbúnaðurinn oft fyrir neðan allar hellur. Það er erfitt fyrir fólk sem ekki hefur einhvern bakhjarl og stendur þá veikt gagnvart atvinnurekanda að semja. Það er ekki hægt að jafna því saman þegar í hlut eiga t.d. verkfræðingar sem njóta þekkingar sinnar og eru eftirsóttir starfsmenn. Þeir eru ekki í vandræðum. Hins vegar geta almennir launþegar lent í vandræðum. Um þá þurfum við að hugsa og þess vegna held ég að besta leiðin sé ef hægt er að finna einhverja leið til að bæði þessi sjónarmið geti farið saman. Félagafrelsið má ekki snúast upp í andhverfu sína.