Kjarasamningar opinberra starfsmanna

Mánudaginn 19. febrúar 2001, kl. 17:43:29 (4787)

2001-02-19 17:43:29# 126. lþ. 72.10 fundur 209. mál: #A kjarasamningar opinberra starfsmanna# (aðild að stéttarfélagi) frv., Flm. PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 126. lþ.

[17:43]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Ósköp var þetta nú máttleysisleg málsvörn fyrir þær stofnanir sem í dag eru nefndar stéttarfélög. Þetta hefði þótt skrýtin ræða svona upp úr 1930, herra forseti. Þá höfðu stéttarfélög virkilegt hlutverk. Þá börðust þau fyrir hagsmunum félagsmanna sinna. Núna eru þetta orðnir værukærir embættismenn nánast sem sitja í stofnunum sínum í krafti þess að fá félagsgjaldið inn nánast eins og skatt.

Það yrði mikil bót fyrir stéttarfélögin ef þau þyrftu að afla sér síns félagsgjalds og félaga sinna með frjálsum hætti þannig að menn gengju í stéttarfélag vegna þess að það borgaði sig. Þannig á það að vera. Það á að borga sig og það mun borga sig fyrir félagsmennina að mynda samtök til að standa vörð um hagsmuni sína af frjálsum vilja, herra forseti, en ekki með þvingun.

Oft hef ég heyrt að mönnum finnist orðin mikil tengsl á milli launþegahreyfingarinnar og atvinnurekenda þegar þessir háu herrar sitja saman í stjórnum lífeyrissjóðanna og útdeila feiknamiklu fjármagni til fjárfestinga í hlutafélögum bæði innan lands og erlendis og njóta sameiginlega þess valds sem þeir peningar veita.