Kjarasamningar opinberra starfsmanna

Mánudaginn 19. febrúar 2001, kl. 17:46:46 (4789)

2001-02-19 17:46:46# 126. lþ. 72.10 fundur 209. mál: #A kjarasamningar opinberra starfsmanna# (aðild að stéttarfélagi) frv., Flm. PHB
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 126. lþ.

[17:46]

Flm. (Pétur H. Blöndal):

Herra forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hefur orðið um þetta frv. Ekki hafa sérstaklega margir tekið þátt í henni og er það dálítið undarlegt í ljósi þeirrar umræðu sem hér átti sér stað fyrir ekki margt löngu um meint brot á stjórnarskránni og elsku manna á því að halda þá stjórnarskrá sem okkur er svo kær. Hefði maður talið að þegar fram kemur frv. þar sem talað er um að á tvennan máta gæti stjórnarskráin hugsanlega verið brotin þá kæmi allt það fólk, þeir hv. þm. sem hér hafa talað hvað mest um stjórnarskrárbrot og létu nú gamminn geisa og létu skoðanir sínar í ljós hvort það gæti verið að stjórnarskráin væri brotin að þessu leyti eða einhverju öðru leyti. En svo er ekki. Hefur verið hér frekar lítil umræða og ekki þeir hv. þm. sem tóku hvað mest til máls um meint stjórnarskrárbrot fyrir nokkrum vikum.

Hér hefur reyndar komið fram einn talsmaður þeirra, fulltrúi opinberra starfsmanna, sem situr þar sem formaður bandalags opinberra starfsmanna. Það er bandalag stéttarfélaga sem njóta þessarar skattlagningar og afstaða hans var fyrir fram ákveðin. Það var alveg vitað hvað hann mundi segja. Hann ver að sjálfsögðu það veldi sem þar hefur verið byggt upp. Það kom því ekkert á óvart, ekki á nokkurn einasta máta og var algerlega fyrir séð. Og væri eiginlega undarlegt ef það væri ekki.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson reyndi að gera mig að málsvara thatcherismans o.s.frv. Hann finnur einhver orð sem honum finnst vera ljót. (ÖJ: Sjálfstæðisfl.) Auk þess sem ég á að vera talsmaður Sjálfstfl. eins og oft áður. Þegar ég flyt hérna einn þingmanna Sjálfstfl. frv. um eitt lítið mál þá er ég allt í einu orðinn talsmaður Sjálfstfl. Ég hef margoft sagt að flokksaginn í Sjálfstfl. er ekki eins sterkur og hv. þm. vill endilega hafa. Hv. þm. segir aftur og aftur: Við vinstri grænir höfum þessa og þessa skoðun. Ég hef aldrei nokkurn tímann tekið mér þau orð í munn og sagt: Við sjálfstæðismenn höfum þessa og þessa skoðun. Ég hef nefnilega skoðun mína óháða öðrum sjálfstæðismönnum að mestu leyti, nema að sjálfsögðu styðjum við sameiginlega stefnu. Það er annað mál.

En ég er ekki talsmaður Sjálfstfl. í þessu máli. Ef það skyldi nú vera að Sjálfstfl. sé á þessari skoðun, þá er ég bara á réttu róli með þetta mál, herra forseti. En fyrir mér er þetta fyrst og fremst spurning um það hvort við séum að þvinga fólk inn í stéttarfélög. Hvort við séum að brjóta stjórnarskrána. Hvort við séum að veikja verkalýðshreyfinguna með því að gera hana að værukæru stofnanaveldi. Það er það sem ég hef áhyggjur af.

Ég hef grun um þetta, skylduaðildin og innheimta félagsgjalda til annarra stéttarfélaga er nánast orðin skattheimta líka, yfirleitt innheimt með lífeyrisiðgjöldum. Ég átti því miður þátt í þeirri þróun á sínum tíma með því að forrita inn innheimtu félagsgjalda hjá Lífeyrissjóði verslunarmanna sem varð til þess að félagsmenn í VR fóru að líta á þetta sem skatt. Þannig hefur þetta gerst eins með sjúkrasjóðinn að þetta eru orðnar sjálfvirkar greiðslur og fólk er algjörlega búið að missa öll tengsl við stéttarfélag sitt sem og stéttarfélögin við fólkið. Það er afleiðingin af þessari sjálfvirku skattheimtu og innheimtu á félagsgjöldum.

Ég varaði við því á þeim tíma að trúnaðarmenn væru ekki látnir innheimta félagsgjöldin eins og var áður fyrr, þegar trúnaðarmenn fóru í fyrirtækin og innheimtu félagsgjöldin. Um leið og sú innheimta hvarf hurfu tengsl félagsmannanna við stéttarfélagið sitt og þá hvarf um leið sá samhugur sem fylgir því að stofna stéttarfélag um sameiginlega hagsmuni. Þetta eru orðnar stofnanir, herra forseti, stofnanir sem eru aðallega í því að sitja í stjórnum lífeyrissjóða og ráðstafa þeim miklu hagsmunum sem þar eru byggðir upp með sparnaði allra landsmanna, sem landsmenn, herra forseti, hafa því miður ekkert um að segja.