Sjálfbær atvinnustefna

Mánudaginn 19. febrúar 2001, kl. 18:19:27 (4794)

2001-02-19 18:19:27# 126. lþ. 72.12 fundur 253. mál: #A sjálfbær atvinnustefna# þál., ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 126. lþ.

[18:19]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Ég get auðvitað verið sammála hv. þm. um það að öll vegferð hefst með skrefum. Það getur verið ágætt að taka ekki allt of stór skref. Ég get í sjálfu sér líka tekið undir þau orð hv. þm. að við getum ferðast svolítið hraðar um þessa slóð, við erum nú sammála um það. Íslendingar eru þannig að ef hægt er að ,,selja`` hugmyndir, ef ég má nota það orð, þá erum við fljót að taka við okkur. Það sjáum við t.d. í skógræktinni á Íslandi, þ.e. mikinn áhuga fólks á skógrækt og landgræðslu. Það er full ástæða til að benda á þessa þætti.

Ég vil auðvitað þakka Skógrækt ríkisins og Landgræðslu ríkisins fyrir þetta. Fyrrverandi forseti lýðveldisins, frú Vigdís Finnbogadóttir, hvatti þjóð sína mjög til dáða í þessum efnum eins og fleira ágætt fólk. Möguleikarnir eru fyrir hendi og einnig í endurvinnslu þar sem við gætum búið til verðmæti úr því sem við höfum hingað til talið verðlaust.

Hv. þm. er klókur og reyndur stjórnmálamaður, enda hefur hann verið í þinginu frá 1983. Hann nýtti tíma sinn vel í ræðustól eins og venjulega. Hann vék ekki að beitarstýringunni fyrr en alveg í lokin en bauðst til að halda með mér sérstakan fund, jafnvel kvöldfund um hugmyndir sínar í þeim efnum. Við erum nú gamlir félagar, herra forseti, ég og hv. þm., úr íþróttahreyfingunni þannig að hver veit nema við getum hist og hv. þm. farið yfir þessi mál. (Forseti hringir.) En það væri kannski gott ef hv. þm. notaði tvær mínútur til þess að fara örstutt yfir beitarstýringuna.