Sjálfbær atvinnustefna

Mánudaginn 19. febrúar 2001, kl. 18:21:39 (4795)

2001-02-19 18:21:39# 126. lþ. 72.12 fundur 253. mál: #A sjálfbær atvinnustefna# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 126. lþ.

[18:21]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég skal með mestu ánægju gera mitt besta til að svara hv. þm. Í aðdraganda búvörusamnings sem ég bar pólitíska ábyrgð á að gerður var á vetrardögum 1991 var ítrekað farið yfir það hvort hægt væri að ná samstöðu um tiltölulega ákveðin ákvæði í samningnum sem stýrðu framleiðslunni í stórauknum mæli inn á þau svæði landsins sem talin væru best til þess fallin að stunda beitarbúskap, þ.e. þar sem framleiðsluskilyrðin væru best og landkostir ekki vandamál.

Það reyndist mjög erfitt mál. Menn báru fyrir sig mismunun og annað þvíumlíkt, brot á jafnræðisreglu jafnvel og takmörkun á atvinnuréttindum manna eftir búsetu o.s.frv. Það lengsta sem þetta mál komst var að inn í samninginn kom ákvæði sem heimilaði yfirvöldum, ráðuneyti og Landgræðslu, að stöðva færslu á framleiðslurétti ef hún væri talin stríða gegn heppilegri landnotkun. Þar kom þó inn merkilegt bremsuákvæði þannig að það var ekki alveg til einskis puðað í þeim efnum. Ég hygg að þetta og fleira sem ég gæti reitt fram sýni að menn voru með fullri meðvitund og reyndu sitt besta fyrir um 10 árum.

Um málið almennt vil ég segja að ég held það sé rétt sem fram kom í máli mínu og hv. þm., að almenningur og ýmsir aðilar í samfélaginu eru að vakna til mikillar vitundar um þessi mál. Ég held að það sé jafnvel ekkert of djúpt í árinni tekið að segja að það hafi orðið talsverð umhverfisvakning á Íslandi síðustu árin, sem betur fer. Hún birtist m.a. í stórauknu aðhaldi almennings gagnvart stjórnvöldum sem lætur sér ekki lynda að menn hegði sér hvernig sem er í þessum efnum. Það hygg ég að hv. þm. og flokkur hans hafi fengið að reyna, m.a. hér á þingi í fyrravetur. (Forseti hringir.) Almenningur er miklu meðvitaðri, t.d. um þau verðmæti sem fólgin eru í hálendinu og ósnortinni náttúru landsins. Það er vel.