Sjálfbær atvinnustefna

Mánudaginn 19. febrúar 2001, kl. 18:24:00 (4796)

2001-02-19 18:24:00# 126. lþ. 72.12 fundur 253. mál: #A sjálfbær atvinnustefna# þál., Flm. KolH
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 126. lþ.

[18:24]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur orðið um þessa þáltill. sem ég talaði hér fyrir. Það sem mér þykir mikilvægt að leggja áherslu á í lokin er að Íslendingar eiga möguleika á að taka frumkvæði í þessari vegferð í átt til sjálfbærrar þróunar. Það er mín dýpsta sannfæring að Ísland geti sannarlega orðið fyrsta sjálfbæra samfélagið í Evrópu. Ef við settum okkur það markmið og kepptum nú einarðlega að því, þá er ég sannfærð um, þó að sú ferð hefjist á einu skrefi, að við gætum farið þá leið skref fyrir skref og komist í mark.

Ég tel að hér sé um mannbætandi stefnu að ræða, stefnu þar sem hver einstaklingur í samfélaginu finnur fyrir ábyrgð og hefur hlutverk og tilgang sem göfgar líf hans, þó ekki væri annað en þann tilgang að starfa hönd í hönd með sínum nánasta nágranna að því að samfélagið verði sjálfbært og ekki sé gengið þannig á auðlindirnar að þær beri skaða af.

Það er jafnframt ljóst að ef náttúruverndarstefna sú sem lýst er í þessari tillögu nær fram að ganga þá væri það óaðskiljanlegur hluti farsællar samfélagsþróunar á 21. öldinni. Og ekki bara það. Ég held að þetta sé það mikið alvörumál að náttúruverndin og umhverfisverndin sem hér er lýst geti beinlínis talist vera skilyrði þess að mannkynið haldi velli.

Að þeim orðum sögðum, herra forseti, legg ég til að málinu verði vísað til hv. umhvn. og ítreka þakkir mínar fyrir þessa umræðu.