Stofnun og rekstur tónminjasafns á Stokkseyri

Mánudaginn 19. febrúar 2001, kl. 18:56:18 (4801)

2001-02-19 18:56:18# 126. lþ. 72.13 fundur 262. mál: #A stofnun og rekstur tónminjasafns á Stokkseyri# þál., KF
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 126. lþ.

[18:56]

Katrín Fjeldsted:

Herra forseti. Eins og aðrir hv. þingmenn vil ég taka undir fagnaðarlætin yfir þessari tillögu. Hún er lítil og nett, lætur lítið yfir sér en hún er afar skemmtileg og viðeigandi því að Stokkseyri tengist tónlistararfinum mjög sterkt. Ekki veit maður hvaðan tónlistargenið kemur en a.m.k. átti það einhverjar rætur á Stokkseyri.

Eins og hv. 1. flm. tillögunnar segir réttilega eru fjölmargir tónlistarmenn komnir frá þessu svæði. Þess vegna væri mjög vel við hæfi af virðingu við þá og þann skerf sem þeir veittu okkur löndum sínum að reisa um þá safn þar.

Það má svo aftur velta fyrir sér hversu yfirgripsmikið safn á Stokkseyri ætti að vera, hvort það ætti eingöngu að tengjast því fólki sem komið er úr Árnessýslu og af Stokkseyri. Eins og komið hefur fram í ræðum manna þá eru nú þegar til önnur söfn, m.a. þjóðlagasetur séra Bjarna Þorsteinssonar á Siglufirði, sem var afar merkur tónlistarmaður og lagði mikið af mörkum til tónlistarsögu okkar. Svo var minnst hér á poppsafnið í Keflavík og því hefur verið lýst ágætlega.

Tónlistin lifir frá einni kynslóð til annarrar og í nútímanum lifir hún á plötum og diskum og í upptökum. En lifandi safn er auðvitað áhugaverðast og má segja að tónlist frá þessum tíma kalli ekki á mjög flókna sali til flutnings vegna þess að mikið af þessari tónlist voru sönglög og frekar einfaldur undirleikur því að hljóðfærin voru ekki orðin mjög þróuð sem fólk hafði þá.

Reykjavík á mjög langa sögu í tónlistinni. Ég var til gamans að fletta í Alþingismannatalinu upp á Pétri Guðjohnsen sem var dómorganisti í Reykjavík en hann sat líka á þingi fyrir Gullbringu- og Kjósarsýslu á árunum 1864--1869. Það er gaman að segja frá því að orgelið hans, eða rifrildið af því, fannst uppi á háalofti í Dómkirkjunni fyrir einhverjum árum og er nú komið í vörslu Þjóðminjasafns en eftir því sem ég best veit hefur það ekki enn þá verið gert upp. En þetta er maður sem var uppi á 19. öld, hann fæddist 1812 og er dáinn 1877. Hann lagði náttúrlega aðallega skerf sinn til tónlistarinnar á þann hátt að vera dómorganisti og söngkennari, en hann var söngkennari í menntaskólanum. Ég rifja þetta upp af því að hann er langalangafi þeirrar sem hér stendur.

Ég las það í bók Stefans Zweig, Veröld sem var, að hann kom sér snemma upp áhuga á tónlistarhandritum. Ég held að mörg tónskáld hafi hálfgerða fóbíu fyrir því að verið sé að grafa upp hvernig tónverkin þeirra verða til. En það er til fólk sem safnar slíkum handritum. Að minnsta kosti var það Stefan Zweig talsvert keppikefli að verða sér úti um handrit þar sem verkin voru að fæðast, fyrstu drög og einhvern aðdraganda að verkum sem urðu síðan vel þekkt og merk. Án efa leynast einhver slík handrit í fórum fólks á Íslandi. Þau er auðvitað mikill fengur að fá inn í tónminjasafn. Ég kom inn í tónminjasafn, ég held það hafi verið í Helsinki, fyrir nokkuð mörgum árum, og það var afar skemmtilegt að sjá hvernig því hafði verið komið fyrir. Það er víst að við getum áreiðanlega fundið bæði hljóðfæri og nótur og síðan upptökur hér og þar á landinu og komið því fyrir á safni af þessu tagi. Talsvert eða eitthvað hefur þegar verið sett í Þjóðarbókhlöðuna. Við munum eftir því, ég held á síðasta ári, að ættingjar dr. Franz Mixa gáfu handritin hans og án efa leynast handrit hér og þar og hljóðfæri.

En ég nefni þetta nú með Pétur Guðjohnsen. Hann bjó í Reykjavík og varði sinni starfsævi hér. Mér fyndist ekkert óeðlilegt að í höfuðborginni yrði reist safn til að rifja upp tónlistarsögu Reykvíkinga. En mér finnst tillaga flutningsmannanna Ísólfs Gylfa Pálmasonar, Margrétar Frímannsdóttur, Drífu Hjartardóttur og Árna Johnsens mjög áhugaverð og hlakka til að sjá hana eiga hraðan gang í gegnum þingið eins og ýmis önnur mál sem eru í gangi núna.