Tónminjasafn

Mánudaginn 19. febrúar 2001, kl. 19:20:08 (4806)

2001-02-19 19:20:08# 126. lþ. 72.14 fundur 267. mál: #A tónminjasafn# þál., KF
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 126. lþ.

[19:20]

Katrín Fjeldsted:

Herra forseti. Mig langar til að fagna þessari vönduðu og áhugaverðu tillögu. Hún lætur lítið yfir sér eins og tillagan sem var hér á dagskrá á undan og segir einungis að Alþingi álykti að stofnað verði tónminjasafn.

Ég fór í ræðu minni um síðasta lið á dagskrá nokkrum orðum um tónlistina og sögu hennar, bæði á Stokkseyri sem sú tillaga sneri að en einnig að tónlistararfi Reykvíkinga. Segja má að á fyrri öld og á þeirri 19. hafi tónlistarunnendur og þeir sem gátu ekki hamið tónlistargen sitt, hvort sem efni voru fyrir hendi eða ekki, sótt til annarra landa til að leita sér að þekkingu. Þeir sóttu fyrst og fremst til Danmerkur, sem eðlilegt var, en einnig til Þýskalands. Þannig að straumarnir lágu frá Evrópu hingað. Ég held að miklu meira hafi verið að gerast á þeim vettvangi þá en menn gera sér endilega grein fyrir í dag.

Við erum núna í alþjóðlegu samhengi og stutt á milli vina í tónlistarheiminum. Það var auðvitað ekki þannig þá, en menn lögðu á sig ómælt erfiði og fjármuni sem þeir áttu ekki til í rauninni til að geta uppfyllt þessa þörf sína.

Tónlistarkennsla var fyrst og fremst söngkennsla framan af og langspil er sennilega fyrsta hljóðfærið hér. En seinna meir eru það kirkjuorgel og eitt og eitt strokhljóðfæri, samanber Ólaf Fíólín, í bókum Böðvars Guðmundssonar, þar sem Böðvar lýsir svo skemmtilega þessum fátæka unga manni, Ólafi, sem fékk fiðlu í hendurnar nokkuð fyrir tilviljun. Bækurnar heita Híbýli vindanna og Lífsins tré, eins og þingmenn án efa muna.

Varðveisla tónlistararfsins hefur verið hjá fólki með tónlistargenið. Það hefur ekki komist hjá því að bera það með sér. Og seinna meir hjá samtökum eins og tónlistarfélögum, kórum og ýmsum aðilum sem héldu utan um það sem þeir gátu. Sinfóníuhljómsveit Íslands var stofnuð fyrir 50 árum, Ríkisútvarpið er rúmlega 70 ára. Þetta er auðvitað mjög mikilvæg varðveisla á menningarhlutverkinu sem þessar stofnanir hafa sinnt. Ég held að þær verði að sinna því áfram, því ég held að einungis á þann hátt sé hægt að tryggja að arfurinn varðveitist.

Tónlistargyðjan ræður ríkjum hvernig sem efnin eru. Það er þá alla vega hægt að syngja ef ekki er efni á hljóðfærum. En tónlistararfurinn okkar á það skilið að honum sé sýndur heiður og tillaga hv. þm. Ólafs Arnar Haraldssonar mætir því fyllilega.