Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 14:06:08 (4812)

2001-02-20 14:06:08# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[14:06]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég gerði tilraun til að spyrja 1. flm. hvað þessi setning þýddi, með leyfi hæstv. forseta:

,,Á vegum Alþingis starfar lagaráð sem hefur það hlutverk að setja samræmdar reglur um samningu lagafrumvarpa og annan undirbúning löggjafarmála.``

Ég fékk auðvitað ekki svar við því frekar en í ræðu hv. þm., heldur ónot.

Ég vil í annan stað vekja athygli á því að í ræðu sinni vék 1. flm. ekki að því hvers vegna han kysi að lagaráð yrði svo skipað að forsn. Alþingis skuli einungis ákveða einn af þrem mönnum en aðrir skuli ákveðnir af Háskóla Íslands og Lögmannafélaginu. Eins og þessi texti er orðaður er gert ráð fyrir því að forsn. geti ekki valið úr tveim eða þrem mönnum sem tilnefndir séu heldur skuli þessar tvær stofnanir úti í bæ ráða því algerlega fyrir Alþingi hvaða einstaklingar séu í því lagaráði sem á að vera alþingismönnum til ráðuneytis.

Nú má vera að ég lesi textann rangt sem þá aftur bendir til þess að ekki hefði veitt af lagaráði til hjálpar og aðstoðar við undirbúning samningu þessa frv.