Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 14:30:45 (4816)

2001-02-20 14:30:45# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[14:30]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég endurtek að ég þekki ekki, svona af lauslegri könnun á fyrirkomulagi þessara mála í nálægum löndum, dæmi þess að ekki séu a.m.k. að lágmarki lagaskrifstofur eða deildir við ráðuneyti eða hjá a.m.k. einu ráðuneyti eins og er í Danmörku þar sem dómsmrn. fer með það hlutverk að fara yfir frv. að þessu leyti í sérstakri lagadeild. Ég held að við Íslendingar séum að verða einir á báti í þessum efnum að það sé enginn sérstakur viðbúnaður að þessu leyti og það var það sem ég var að vitna til.

Í öðru lagi er rétt hjá virðulegum forseta að auðvitað hafa starfsaðstæður að mörgu leyti stórbatnað á þinginu, hvort sem litið er 10 eða 18 ár eða þaðan af lengra aftur í tímann. Nú man ég ekki í svipinn hvað hæstv. forseti hefur setið lengi á þingi en sennilega eru það nú líklega orðin 22 ár, a.m.k. --- eitthvað á þriðja áratug, hygg ég, auk þess sem hv. þm. og hæstv. virðulegur forseti mun hafa komið nokkrum sinnum enn fyrr inn á þing sem varamaður.

Það er samt þannig, og það er kannski ekkert skrýtið af því að við erum lítið þjóðþing hjá fámennri þjóð, að við erum að ýmsu leyti mun lakar sett í þessum efnum en t.d. þingmenn nágrannaþjóðanna. Við höfum ekki sjálfstæða aðstoðarmenn á eigin snærum og hér mætti t.d. að mínu mati vera sérstök lagadeild eða lagahópur innan nefndadeildar. Að mínu mati er ekki rétt að hægt sé að segja að menn hafi alltaf fengið allar óskir sínar um lögfræðilega úttekt á málum viðteknar. Iðulega er ýmist borið við tímaleysi eða peningaleysi og færst undan því að fara að senda mál til umsagnar hjá Lagastofnun Háskóla Íslands o.s.frv. Þetta þekkjum við úr nefndastarfinu hér. Þó að ég hafi ekki á reiðum höndum einstök dæmi um slíkar neitanir þá vitum við, held ég, öll að oft er niðurstaðan sú að ekki er farið út í að gera slíka hluti jafnvel þó að ástæða gæti verið til.