Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 14:33:03 (4817)

2001-02-20 14:33:03# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[14:33]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég var ekki beinlínis að tala þar um frv. sem eru þess eðlis að þeim verður að hraða, m.a. vegna efnahagsástands eða einhvers þvílíks, heldur um flókna lagabálka. Um leið og ég tek undir með hv. þm. um að Stjórnarráðið, einstakir ráðherrar, mættu oft vanda betur frv. sín --- hef nú ekki alveg hreinan skjöld í þeim efnum sjálfur --- þá sjáum við það ef við flettum gömlum frv. að oft hefur verið leitað til kennara lagadeildar háskólans. Jafnvel hafa hæstaréttardómarar komið að því að semja lagafrv. sem eru flókin lagatæknilega, lúta að réttarfari, sifjarétti eða einhverju þvílíku þannig að auðvitað hefur Stjórnarráðið eða einstakir ráðherrar reynt að vanda lagasmíð að þessu leyti. Ég fullyrði að þessi mál séu nú í athugun hjá Stjórnarráðinu.

En ég var áðan að tala um störf Alþingis en ekki ríkisstjórnarinnar þegar ég var að tala um bætt vinnubrögð og minni á að hér er vísir að lagadeild, sérstakri lagadeild á nefndasviði, þó svo að við höfum enn ekki haft bolmagn til þess að efna til slíkrar skrifstofu með formlegum eða skipulegum hætti eins og er auðvitað æskilegt.