Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 14:37:05 (4819)

2001-02-20 14:37:05# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., GE
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[14:37]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegi forseti. Sannarlega er ástæða til að málefni um lagaráð séu rædd á Alþingi. Ærið oft hefur verið spurt hvort lagasetning sé nægjanlega vönduð. Margoft hefur verið gagnrýnt að lagasetning og breytingar á lögum séu framkvæmdar í flaustri og tímaskorti á Alþingi. Þessum orðum er að sjálfsögðu ekki, virðulegi forseti, beint gegn starfsmönnum þings, þvert á móti. Ég hef sem þingmaður og sem starfsmaður í nefndum notið mjög góðs stuðnings frá starfsmönnum þingsins og fengið margar og góðar leiðbeiningar bæði þaðan og reyndar frá ráðuneytum.

Þegar það ber þannig til að lagasetningu er hraðað, eins og auðvelt er að taka dæmi um, getur það gerst að lagasetningin getur skaðað réttaröryggi borgaranna. Gamla máltækið segir að of seint sé að byrgja brunninn þegar barnið er dottið ofan í. Ég nefni t.d. lögin um stjórn fiskveiða, sem sett voru árið 1983, nánast að segja í tilraunaskyni. Ég tel að það sé langt þangað til að þar verði sátt um það mál og mikil nauðsyn á að finna leiðir að því marki. Ég hef a.m.k. persónulega mjög miklar efasemdir um þá lagasetningu og ég tala ekki um framkvæmd laganna.

Ég get líka komið að því, virðulegi forseti, að ég tel að ef t.d. frv. til laga frá ríkisstjórn og svo frá öðrum þeim sem leggja fram frv. bærust tímanlega þá gæfist tími til að hreinsa út lagatexta sem eru stundum svo flóknir að kalla má óskiljanlegt mál. Ég vil minna á lög eins og skipulagslög sem undirritaður var með í að gera 64 breytingar á við u.þ.b. 80 lagagreinar, margar minni háttar en sumar mjög alvarlegs eðlis. Síðan hefur frv. farið enn í endurskoðun. Ef ég man rétt þá voru gerðar allmargar breytingar á því frv. eftir það þannig að það mál hefur t.d. farið í gegnum hreinsun, ef það er hægt að kalla það svo, a.m.k. þrisvar.

Það má einnig segja að Alþingi þarf að gæta þess að rasa ekki um ráð fram í magni lagasetninga og það hefur einnig komið fyrir að lagabálkar stangast á. Ég vil nefna þjóðlendulögin í því sambandi.

Með leyfi forseta vil ég vitna hér í grein úr Morgunblaðinu frá laugardeginum 3. febr. þar sem fjallað er um sambærileg mál í öðrum löndum og vil benda á, með leyfi forseti, það sem stendur í þessari grein:

,,Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur iðulega úrskurðað lög andstæð stjórnarskrá og sömu sögu er að segja af stjórnlagadómstól Þýskalands sem ógilti um 5% allra laga sem samþykkt voru á sambandsþinginu frá 1951--1990.`` --- 5% allra laga sem samþykkt voru frá 1951--1990 í Þýskalandi.

Það er auðvitað þannig að reglur eru ólíkar á milli landa. Í Frakklandi er forseta, forsætisráðherra, þingforsetum eða 60 þingmönnum hið fæsta heimilt að bera undir stjórnlagaráð hvort frv. standast gagnvart stjórnarskrá. Meðal fulltrúa í ráðinu eru fyrrverandi forsetar landsins.

Dómstólar á Norðurlöndum hafa beitt valdi sínu til að víkja lögum til hliðar ef augljóst misræmi er á milli þeirra og stjórnarskrár af mikilli varfærni. Hæstiréttur Danmerkur kvað t.d. í fyrsta skipti upp dóm um að lög brytu í bága við stjórnarskrá árið 1999. Á seinustu árum hefur Hæstiréttur Íslands hins vegar æ oftar komist að þeirri niðurstöðu að lagaákvæði stangist á við stjórnarskrá þannig að sjá má að nokkur nauðsyn er á að koma á lagaráði eða sambærilegu til þess að koma í veg fyrir slíka árekstra.

Herra forseti. Ég tel að það verði að gera þá kröfu til ríkisstjórnar á hverjum tíma að frv. til nauðsynlegra laga og lagabreytinga komi fram í fyrsta mánuði hvers hausts ef raunhæft á að vera að afgreiða lagafrv., ég tala ekki um meiri háttar, á þeim vetri sem um er að ræða. Svo hlýtur að vera grundvallaratriði að hinn almenni borgari skilji lagatexta. Á því tel ég að sé mikill hængur og það hefur margoft komið fram.

Skoðun mín er þó þrátt fyrir framansagt að ég tel að þingmenn leggi sig fram við að vinna við frv. og vanda til lagasetningar almennt séð. En ég minni á að oft hefur verið keyrð í gegn lagasetning á skömmum tíma í ljósi frv. sem komið hafa fram á síðustu klukkutímum þingtíma og verið keyrð í gegn. Ráðherrar á hverjum tíma hafa vísað svona gagnrýni og umsögnum á bug og ég hirði reyndar ekki um að fjalla mikið um það en ég tel að lagaráð í þeim anda sem rætt er um í því frv. sem við erum hér að fjalla um, sem flutt er undir forustu hv. þm. og þingflokksformanns Samfylkingarinnar, Bryndísar Hlöðversdóttur, sé skref til framfara varðandi vinnubrögð þingsins.

Í þessu sambandi er einnig rétt að minna á að frv. til laga liggja fyrir í miklum mæli og er nánast ófært að afgreiða þau nema á löngum tíma. Það hefur einnig verið þannig í gegnum tíðina að frv. stjórnarandstöðu hafa á hverjum tíma a.m.k. að nokkru leyti lotið þeim örlögum að mæta afgangi og verða á eftir frv. ráðherra og stjórnarliða sem eru jafnvel seinna fram komin. Ég tók fram að þetta væri í gegnum tíðina, þetta er ekki það sem er núna heldur hefur verið í gegnum tíðina. Á þeim vinnubrögðum þarf að verða breyting, bæði að frv. sem hafa fengið umfjöllun og felld komi fram ef þau eru flutt að nýju með nýjum rökstuðningi, ef þau eru endurflutt, og að ekki þurfi að endurflytja mál nema þau hafi fengið umfjöllun í viðkomandi laganefnd. Það sem ég er að segja, virðulegi forseti, er að hafi verið lagt fram frv. og það ekki komist til afgreiðslu, þá gildir framlagt frv. þangað til það hefur verið afgreitt. Annars getur þessi forgangsröð hvað eftir annað farið eins og ég var að lýsa áðan.

[14:45]

Hér með orða ég þá hugmynd, virðulegur forseti, að forsn. Alþingis yfirfari vinnureglur í þessu sambandi og geri á bragarbót. Það má einnig segja að nauðsyn sé á lögum um afgreiðslu laga, þ.e. lögum um afgreiðslu laga frá hinu háa Alþingi. Mér er kunnugt um að menn hafa velt þessu fyrir sér í öðrum þjóðþingum og telja nauðsynlegt að setja lög um lagaafgreiðsluna.

Það má einnig velta fyrir sér stöðu lagaráðs þegar það verður skipað. Lagaráð þarf að vera óháð og hafið yfir umræður um pólitíska íhlutun. Það má velta mörgum atriðum fyrir sér í þessu sambandi og þá helst hverjum verður falið að kjósa eða skipa í lagaráð. Það verður ekki gert án aðkomu Alþingis á hverjum tíma. Einnig má velta fyrir sér skipunartíma, hvort ekki sé rétt að skipun lagaráðs miðist við mitt kjörtímabil, þ.e. að að jafnaði verði endurskipun lagaráðs miðuð við mitt kjörtímabil.

Starfsreglur lagaráðs eru einnig atriði sem verður að vanda mjög til. Lagaráð verður, eins og áður sagði, að vera hafið yfir umræður og vangaveltur um pólitísk áhrif á störf þess.

Herra forseti. Ég lýsi því hér með yfir að ég styð eindregið að lagaráð starfi á Alþingi eða á vegum Alþingis eins og gert er ráð fyrir í 1. gr. þessa frv.

Virðulegur forseti. Enn annar þáttur er síðan reglugerðarsetning í kjölfar lagasetningar. Ég tel að ekki sé síður nauðsynlegt að gæta sín vel við reglugerðarsetningu sem grundvallast á lögum. Þar er vandasamt verk á ferðinni bæði hvað varðar orðskýringar og skilgreiningu á framkvæmd, útskýringu á ábyrgð og skyldur þeirra sem í hlut eiga. Það er líka mjög nauðsynlegt að reglugerðir séu kláraðar hið fyrsta eftir að lög hafa verið sett og ekki síður nauðsynlegt að lagaráð eða sambærilegur aðili lesi síðan saman reglugerðir og lög eftir að reglugerð liggur fyrir.

Herra forseti. Það sem ég hef fjallað um í ræðu minni er innlegg í umræðuna um lýðræði og hvernig lagasetning verndar best það hugtak og þar með réttaröryggi borgaranna. Í sambandi við reglugerðarsetninguna, virðulegur forseti, hef ég áhyggjur af því að reglugerðum sem settar eru á grundvelli laga sé ekki framfylgt. Ég velti þessu fyrir mér í sambandi við fjárreiðulög þar sem nýkomin er út reglugerð um hvernig eigi að fylgjast með að farið sé að fjárreiðulögum varðandi fjárlagafrv., t.d. á þar með hálfs annars mánaðar fresti að fylgjast með, ef hægt er, bókhaldi hinna mismunandi ráðuneyta og fá þar útskrift af stöðu mála hverju sinni. Ég hef áhyggjur af því að þessu verði ekki framfylgt. Þetta er eitt af því sem ég vildi gjarnan nefna, virðulegur forseti. Að þessu sögðu þætti mér mjög fróðlegt að heyra álit hæstv. dómsmrh. á þeim atriðum sem ég hef nefnt og tel að varði mjög miklu um hvernig til tekst með lagasetningu á hinu háa Alþingi sem ég tel að skipti mjög miklu að sé bæði skýr og skiljanleg þannig að almenningur, fólkið í þessu landi, skilji hvað lagatextinn fjallar um. Þá vitna ég enn til þess sem ég sagði við lok ræðu minnar, að það skiptir máli að vernda það hugtak sem er réttaröryggi borgaranna.