Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 14:51:51 (4820)

2001-02-20 14:51:51# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., GÖ
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[14:51]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Hér er afar spennandi umræða á ferðinni í tengslum við frv. um lagaráð, en hv. flm. Bryndís Hlöðversdóttir hefur gert grein fyrir frv.

Þegar ég ákvað að skoða þessa umræðu fékk ég efni frá Danmörku sem sýnir umræðu nokkur ár aftur í tímann um einmitt svipað mál, lagaráðið. Núna er þverpólitísk samstaða um að skipa þar lagaráð. Þrátt fyrir það hafa þeir samt sem áður sína lagaskrifstofu sem er tengd dómsmálaráðuneytinu. En þeir vilja meina að þingið verði að eiga möguleika á eigin mati á málum þannig að engin áhöld séu um að einhverjir pólitískir herráðsmenn stjórnarinnar geti komið þar að.

Það er mjög gaman að skoða þá umræðu. Hún er núna aftur komin á fljúgandi fart eða var það sérstaklega einmitt vegna dóms hæstaréttar í Danmörku í svokölluðu Tvind-máli. Talað er um það að núna sé hæstiréttur Danmerkur sífellt að gefa danska þinginu langt nef með því að dæma þannig að það sé að brjóta stjórnarskrá. Og þeir vilja meina að eitt af því sem sé að sé einmitt fljótaskrift í lagasetningum og að flokkar séu í ,,panik`` þannig að þeir flýti sér allt of mikið.

Hins vegar gerðu Danir eitt til fyrirmyndar og það væri kannski eitthvað sem við ættum að taka upp hér. Danska þingið var með ráðstefnu bara um lagaráðið þar sem þeir fengu sína sérfræðinga og allir þingmenn sátu þar og fóru yfir málið. Mér fyndist alveg spurning um að skoða slíkt enda hefur umræðan í fjölmiðlum núna verið með líflegasta móti í þessa veru þannig að það væri ekki leiðinlegt að kalla til alla þá sérfræðinga sem hingað til hafa verið að tjá sig um þessi mál og boða til ráðstefnu þingsins. Ég vil hér með gauka þeirri hugmynd t.d. bæði að hæstv. forseta og forsn. þingsins eða jafnvel hv. allshn.

Frv. eru auðvitað misstór og misflókin og það er afar mikilvægt að yfir þau sé farið og þá ekki hvað síst með tilliti til þess að þau séu skýr, að þau séu gegnsæ og skiljanleg þeim sem þurfa að nota þau. Þetta hefur talsvert verið rætt í allshn. Þangað hafa komið stórir lagabálkar og var vinna við frv. til laga um persónuvernd til fyrirmyndar, enda tók langan tíma að vinna það mál í nefndinni og var ekki nein fljótaskrift á þeirri vinnu. Núna er t.d. í nefndinni verið að vinna að svokölluðu útlendingafrumvarpi sem er gríðarlega viðamikið og stórt og í því 56 greina frv. er t.d. gert ráð fyrir einum 30--40 reglugerðum. Það hefði nú verið gott að fá álit lagaráðs á slíku frv. því að ég vil meina að lög verði að vera gegnsærri þannig að þau nýtist þeim sem á þurfa að halda.

Auðvitað er þekki ég ekki til hvernig var hér fyrr á árum. En við erum með mjög öfluga nefndadeild sem er okkur vel til ráðgjafar og hugsunin með þessu lagaráði er auðvitað sú að við viljum veg þingsins sem mestan. Það hlýtur að vera það leiðarljós sem við förum eftir. Þegar við tölum um að umræðan sé tiltölulega gömul í Danmörku --- hún er sennilega búin að standa yfir frá því í kringum 1990 --- þá er hún kannski líka örlítið gömul hér. Flutningsmaður þessa frv. sagði mér frá því að þegar hún var að skoða þessi mál núna, löngu eftir að þetta mál kom fram, þá fann hún einmitt lítið frv. sem hv. þm. og núv. hæstv. ráðherra, Páll Pétursson, flutti á sínum tíma. Það fjallaði einmitt um lagaráð. Í raun er þetta því kannski umræða sem stendur þinginu afar nærri og er mjög mikilvægt að koma á og það verður mjög fróðlegt að sjá þær umsagnir sem hv. allshn. mun leita eftir og hver hugur sérfræðistofnana er til þessa máls.

Það er mjög fróðlegt að kíkja í skýrslu forsrh. um starfsskilyrði stjórnvalda sem gerð var samkvæmt beiðni hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Þar er fjallað sérstaklega um lagaskrifstofu eða lagaráð og þar segir, með leyfi forseta:

,,Hér á landi er ekki starfandi lagaskrifstofa hjá Stjórnarráði Íslands sem hefur það hlutverk að gera lögfræðilega athugun á öllum stjórnarfrumvörpum áður en þau eru lögð fyrir Alþingi. Þá er heldur ekki starfandi lagaráð hjá Alþingi sem hefur þetta hlutverk með höndum.``

Svo er farið yfir það sem hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir fór jafnframt yfir, þ.e. þau mál sem borist hafa til umboðsmanns Alþingis og verður sú stofnun sjaldan oflofuð enda afar mikilvæg fyrir réttindi borgaranna. En jafnframt segir hér:

,,Vart er við því að búast að hnökrum á íslenskri löggjöf fækki nema fundin verði leið til þess að vanda betur gerð lagafrumvarpa. Mikilvægt er að tekið verði til athugunar hvort ekki sé ástæða til að koma á fót lagaskrifstofu við Stjórnarráð Íslands í þessu skyni.``

Flestallir eru því að velta fyrir sér að fá styrkingu fyrir þingið hvort heldur það ætti að vera vegum þingsins eða á vegum Stjórnarráðsins.

Það verður mjög gaman að vinna með þetta mál í hv. allshn. Ég vil líka jafnframt fagna því sérstaklega að hæstv. dómsmrh. hefur verið iðin við að sitja yfir þessari umræðu enda segir mér nú svo hugur að þetta mál snerti hennar ráðuneyti afar mikið og væri mjög gaman að eiga við hana fagpólitískan orðastað um það. En þetta er núna í deiglunni, hefur verið og mun verða þar til málið verður til lykta leitt.