Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 15:19:48 (4823)

2001-02-20 15:19:48# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[15:19]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég var einmitt áðan í umfjöllun minni um þetta mál að vekja athygli á forustugrein í Morgunblaðinu að því er varðar kostnað við slíkt lagaráð. Þar er tekið undir það að þó að kostnaður geti falist í því að koma á fót slíku lagaráði þá sé sá kostnaður sem til þess falli örugglega miklu minni en ef þingmenn hafa ekki þá starfsaðstöðu sem nauðsynlegt er til að gera lagafrv. þannig úr garði að þau samræmist stjórnarskránni og séu boðleg á allan hátt. Ég held því að ekki sé mikill kostnaður því samfara að koma á fót slíku lagaráði, að það svari því ekki, herra forseti, sem það mundi skila okkur í bættri og betri löggjöf. Það á að vera metnaður, ekki síst forseta þingsins, að slíkt lagaráð sé fyrir hendi til þess að við getum skilað af okkur metnaðarfullri löggjöf.