Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 15:45:58 (4829)

2001-02-20 15:45:58# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., Flm. BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[15:45]

Flm. (Bryndís Hlöðversdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég undrast það að hæstv. forseti sjái ekki mun á því hvort þessir ágætu menn --- og ég stóð ekki gegn því að þeir yrðu kallaðir fyrir nefndina til ráðgjafar. Aðrir voru líka kallaðir til sem við í minni hlutanum lögðum til að kæmu fyrir nefndina. Ef hæstv. forseti Alþingis sér ekki mun á því hvort um er að ræða að menn séu kallaðir til af einstökum þingmönnum, ráðherrum eða meiri hluta eða minni hluta til þess að gefa eitthvert ráð í ákveðnu máli eða hvort um er að ræða tiltekið lögbundið apparat sem hefur þetta hlutverk með höndum og hefur ákveðnar skyldur til að kafa sérstaklega ofan í mál og hefur ákveðnar skyldur til að leggja sérstaklega á það hlutlaust mat.

Ég er alls ekki að efast um að þessir ágætu menn hafi lagt sig alla fram í því að meta þetta mál en ég vil vekja athygli á því að allir þeir ágætu lögfræðingar sem komu fyrir nefndina í þessu tiltekna máli, úr því að verið er að draga það sérstaklega fram, höfðu afskaplega lítinn tíma til að kynna sér það mál og höfðu alla fyrirvara á því.

Ef menn sjá ekki muninn á því að um er að ræða ráð, lögbundið ráð sem fer eftir fyrir fram ákveðnum, skýrum reglum annars vegar og hins vegar þegar við hérna, ágætir þingmenn, erum að kalla til menn til ráðgjafar, þá er vandasamt að reyna að rökstyðja mál sitt, herra forseti, ef hæstv. forseti sér virkilega ekki mun á þessu tvennu.