Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 15:48:12 (4831)

2001-02-20 15:48:12# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[15:48]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Halldór Blöndal hefur í nokkrum andsvörum og eins í ræðu flutt fram rök sín gegn því af hverju hann leggst gegn því að þetta mál nái fram að ganga. Ég held, virðulegi forseti, að ég hafi hlýtt á allar þær ræður og þrátt fyrir það, eins og fram kom í máli hans áðan, að þessi hugmynd hafi verið hér á kreiki um áratuga skeið var ekkert í málflutningi hans sem í raun og veru réttlætir svona ,,drastísk`` viðbrögð, ef nota má það orð, við þeirri hugmynd sem hér hefur verið lögð fram.

Í sjálfu sér er ekki verið að leggja neitt annað til en að reyna að bæta störf þingsins, að reyna að bæta þá löggjöf sem kemur frá þinginu og reyna að tryggja það að sú löggjöf sem héðan fer sé í samræmi við stjórnarskrá, hún sé í samræmi við alþjóðasamninga, því það hefur komið í ljós og kom í ljós í þeirri skýrslu sem Páll Hreinsson ritstýrði fyrir einhverju síðan, og gott ef ekki var lögð hér fyrir þingið af hálfu hæstv. forsrh., að á Íslandi var í u.þ.b. 45 tilvikum af 2.000 sem umboðsmaður hafði fjallað um löggjöf þar sem hann fann ýmislegt að þeirri löggjöf. Það er miklu hærra hlutfall en annars staðar þekkist.

Því finnst mér mjög sérstætt að forseti þingsins, hv. þm. Halldór Blöndal, skuli leggjast svo eindregið gegn þessu máli með þeim hætti sem hann gerir hér og með rökstuðningi sem er mjög erfitt að átta sig á og er þá vægt til orða tekið. Mér hefur helst fundist sem svo að rökstuðningur hans felist í því að minni hlutinn hafi ekki álit á sumum þeim sem vinna við lagadeildina í háskólanum. Það er það næsta sem ég kemst í rökstuðningi hv. þm.