Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 16:07:12 (4836)

2001-02-20 16:07:12# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., Flm. BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[16:07]

Flm. (Bryndís Hlöðversdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef það nú fram yfir þá báða, hv. þm. Halldór Blöndal og hæstv. forsrh., að ég sat í heilbr.- og trn. og hlustaði á þessa ágætu menn. Allir gestirnir sem komu fyrir nefndina, ég fullyrði það að allir þeir löglærðu einstaklingar sem komu fyrir nefndina hafi tekið það fram í upphafi, og ég vil kalla það fyrirvara, að þeir hefðu haft mjög stuttan tíma til að kynna sér þetta mál, eðli málsins samkvæmt, vegna þess að nefndin vann það mjög hratt og að þeim sýndist að þetta væri svona og svona. Sumir þessara ágætu þriggja prófessora nefndu t.d., og reyndar allir sögðu að það væru fyllilega tækir tveir lögskýringarkostir í stöðunni. Ég vil bara taka þetta fram úr því að menn eru mjög fastir í því sem gerðist í heilbr.- og trn. og eru að reyna að láta líta svo út að við séum að gera lítið úr þeim ágætu mönnum sem þangað komu fyrir nefndina.

Herra forseti. Ræða hæstv. forsrh. hér áðan var að mörgu leyti merkileg. Hann sagði að þingmenn ættu að geta treyst því að þessi lagatæknilegu atriði væru í lagi. Þau eru það ekki, herra forseti. Það hefur komið fram í skýrslu umboðsmanns Alþingis að meinbugir á íslenskum lögum eru fleiri en í nágrannaríkjunum. Og það er heldur ekki rétt, herra forseti, að þetta sé alfarið undir dómsmrn. og á lagaskrifstofum ráðuneytanna í nágrannaríkjunum. Það fór ég yfir í framsögu minni áðan. Það er annað fyrirkomulag um Svíþjóð. Í Noregi er þessi tiltekna lagaskrifstofa sem fer með þessi mál vistuð í dómsmrn. Hún heyrir stjórnsýslulega undir þingið samanber grein sem ég las upp úr í framsögu minni áðan þannig að hún er algjörlega sjálfstæð gagnvart dómsmrn. eftir því sem ég les upp úr grein eftir danskan stjórnsýsluprófessor.

Herra forseti. Ég vil bara benda á að ýmislegt kom fram í máli hæstv. forsrh. sem að mínu mati bendir til að hann sé ekki alveg kunnugur því hvernig þetta fyrirkomulag er á Norðurlöndunum. Auðvitað vill hæstv. forsrh. hafa þetta allt saman undir hatti ráðuneytanna. Og auðvitað vill hann hafa framkvæmdarvaldið sem sterkast, sérstaklega núna á meðan hann situr í ríkisstjórn sjálfur. (Forseti hringir.) Ég ítreka það að við erum hér að tala um að efla vægi Alþingis (Forseti hringir.) í lagasetningunni.