Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 16:10:02 (4838)

2001-02-20 16:10:02# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., Flm. BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[16:10]

Flm. (Bryndís Hlöðversdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég undrast að hæstv. forsrh. skuli ekki nýta andsvar sitt betur en til þess að eyða tímanum í karp á borð við þetta.

En ég vil víkja að því sem hann sagði áðan í ræðu sinni. Ég kom því ekki að í fyrra andsvari mínu. Hann sagði eitthvað í þá veru að hér færi fram umræða sem væri pólitískt karp og að menn ættu að geta treyst því að lagalegu atriðin væru í lagi. Herra forseti. Það er ekki svo. Það hefur komið fram í skýrslu umboðsmanns Alþingis. Hvaða úrræði vill hæstv. forsrh. leggja til til þess að bæta úr þessu? Eða telur hæstv. forsrh. að það skipti engu máli að hér á landi eru mun fleiri meinbugir á lögum en í nágrannaríkjunum, þrátt fyrir ágæta ráðgjöf og ágæta lögfræðilega kunnáttu sem er til staðar í ráðuneytunum og líka hér við nefndadeild Alþingis? Það þarf að bæta einhvers staðar úr. Hvar vill hæstv. forsrh. leggja til að bætt verði úr? Eða telur hann það bara vera allt í lagi að hér sé mun algengara að menn (Forseti hringir.) ...?