Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 16:15:54 (4842)

2001-02-20 16:15:54# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[16:15]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er nú endurtekinn misskilningur sem hefur komið fram sem er dálítið sérstakur, að sú nefnd sem ríkisstjórnin setti á laggirnar, lögfræðinganefnd, hafi átt að endurmeta dóm Hæstaréttar og þess vegna hafi hún orðið að vera hlutlaus að einhverju leyti. Það stóð aldrei til, það var ekki meiningin. Þetta er einhver reginmisskilningur sem því miður málflutningsmaður Öryrkjabandalagsins hafði uppi og fleiri hafa glapist á að gleypa þá flugu. Þessi nefnd átti ekkert að endurmeta dóm Hæstaréttar. Hún átti bara að fara fyrir hönd umbjóðenda sinna yfir það hvað nákvæmlega fælist í dómnum. Það eru flestir orðnir sammála um það a.m.k. eftir þá umræðu að dómurinn var ekki skýr. Við vildum vita nákvæmlega hvað í honum fælist að mati þessara lögfræðinga. Þetta voru allt trúnaðarmenn viðkomandi ráðherra. Engin dul er dregin yfir það, enda stóð ekki til að endurmeta dóm Hæstaréttar. Þá hefði þurft að hafa einhverja --- ef það væri hægt en það er ekki til í íslenskri stjórnskipun --- hlutlausa menn, ég veit ekki hvaðan þeir hefðu átt að koma sem hefðu áttu að endurmeta dóm Hæstaréttar. Það stóð aldrei til.

Ég tel reyndar að sú meðferð sem ríkisstjórnin hefur staðið að hvað þetta varðar sé góð og við gátum ekki neitt annað gert í máli sem þannig var vaxið. Ég vek athygli á því að ef fjórir merkir lögfræðingar hefðu setið í lagaráði, til að mynda tveir héraðsdómarar og tveir hæstaréttardómarar, fjórir menn, þá hefðu þeir allir komist að þeirri niðurstöðu að öryrkjadómurinn, öryrkjamálið, bryti ekki í bága við stjórnarskrána, hið fyrra mál, þannig að þetta var nú ekki ljósara og gleggra heldur en það og voru þetta allt saman mjög virtir menn.

Ég setti fram sjónarmið í ræðu minni um það með hvaða hætti ég teldi að við gætum styrkt þennan þáttinn. Ég vek athygli á því að umboðsmaður Alþingis hefur gert athugasemdir og allshn. Alþingis hefur fylgt slíkum athugasemdum umboðsmanns eftir við ráðuneytið. Það er því ákveðið aðhald sem Alþingi veitir. Síðan lýsti ég með hvaða hætti ég teldi hins vegar að ætti að undirbúa lagafrv. á undirbúningsstigi þeirra, en ekki á meðferðarstigi þeirra.