Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 16:48:45 (4847)

2001-02-20 16:48:45# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[16:48]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir að hafa hér í ræðu sinni farið yfir viðhorf sín til hinna ýmsu leiða sem nefndar hafa verið í þessari umræðu. Þó að hún tæki ekki undir tillögu okkar um lagaráð á þessari stundu þá var svolítið annar tónn í ræðu hennar en við höfum mátt venjast frá því fyrr í dag.

Varðandi athugasemd hennar um minnihlutastjórnir þá vil ég árétta að ég tók undir eitt sjónarmið hjá forsrh., nefnilega að minnihlutastjórnir gera það að verkum að meira samstarf verður í þinginu eðli málsins samkvæmt. Ekki bara það, þegar mikið samstarf er í þinginu á milli stjórnar og stjórnarandstöðu þá sýna menn virðingu í samskiptum við aðra, sem er farið að skorta talsvert á núorðið í þinginu, vegna þessa umtalsverða samráðs sem þarf að viðhafa.

Ég verð, herra forseti, að geta þess að það var allt annað vinnulag þegar ríkisstjórnin á undan þessari var við völd og e.t.v. má skýra það með hinum nauma meiri hluta sem hún hafði. Ég vil sérstaklega taka fram að ég sakna þess ekki að hér hafi ekki verið við völd eða hafi ekki tíðkast minnihlutastjórnir þó að ég vilji að við höfum vandaðri vinnubrögð og meira samráð. Ég get meira að segja upplýst að ég er sannfærð um að ég og félagar mínir munum verða aðilar að og mynda næstu ríkisstjórn og að það verður meirihlutastjórn.