Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 16:53:42 (4850)

2001-02-20 16:53:42# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[16:53]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ástæða fyrir því að ég tek svo til orða. Þar lít ég fyrst og fremst til ræðu hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur. Hún ítrekaði að það væri gert lítið úr þingmönnum á hinu háa Alþingi og ekki haft samráð við þingmenn stjórnarandstöðunnar.

Það er einfaldlega þannig, ég geri ráð fyrir því að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson viti það jafn vel og sú sem hér stendur, að leikreglur lýðræðisins gera það að verkum að hlutverk stjórnarandstöðunnar er mjög mikilvægt. Þess vegna tók ég svona til orða.

Þá skoðun mína varðandi eftirlit og samræmingu lagafrv., að því sé betur fyrir komið innan Stjórnarráðsins, byggi ég m.a. á því að ég tel að heppilegra að lagafrv. komi þannig útbúin til þingsins, þegar rætt er um stjórnarfrv., að ekki sé hægt að efast um lögfræðilegt innihald þeirra. Það er síðan þingsins að takast á um pólitískt innihald þeirra en það er allt annað mál.