Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 17:21:26 (4857)

2001-02-20 17:21:26# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[17:21]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við höfum rætt þetta mál í fjóra klukkutíma. Allan þann tíma hefur legið skýrt fyrir að tillagan gerir ráð fyrir ráðgefandi ráði. Ekki því að ráðið setji lög sem hugsanlega fari gegn stjórnarskrá, sem mér heyrðist hæstv. forseti vera að reyna að ýja að hér áðan. Ekki að það setti reglur sem einhver væri bundinn af, frekar en af áliti umboðsmanns sem hæstv. forseti ætti nú að þekkja. Þar er ekki bindandi úrskurður. Hér á ferðinni hugmynd um að setja á stofn ráðgefandi ráð sem hafi það hlutverk helst og markmið að bæta vinnubrögð hér á hinu háa Alþingi. Allt og sumt.

Í dag hefur verið rætt um þetta mál. Það hefur ekki verið sérstaklega til umræðu hvort bætt hafi verið við starfsfólki í nefndadeild. Það hefur ekki verið á dagskránni. Við erum búin að ræða þetta tiltekna mál sem hefur það markmið að setja á fót ráðgefandi nefnd til að bæta vinnubrögð Alþingis. Viðbrögðin við þessu tiltekna máli hafa vakið athygli, hvernig hv. þm. meiri hlutans hafa brugðist við þessari hugmynd. Út á það hefur gagnrýni mín gengið, virðulegi forseti.