Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 17:23:12 (4858)

2001-02-20 17:23:12# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[17:23]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson talaði um að hér væri lítið mál á ferðinni. Ég er reyndar ekki alveg sammála honum í því. Engu að síður tönnlaðist hann á því áðan í ræðu sinni að þetta væri lítið mál. Síðan gerir hann lítið úr og talar allt að því yfirlætislega um skoðanir sem hæstv. ráðherrar, forsrh. og dómsmrh., hafa sett fram í þessu máli, skoðanir hæstv. ráðherra á því hvaða leiðir beri að fara varðandi þetta tiltekna atriði, hvernig hægt sé að styrkja og bæta og gera löggjöfina enn betri.

Þeir setja fram skoðanir um lagaskrifstofu. Af hverju? Af því að það stendur hér í ágætri skýrslu sem hæstv. forsrh. lagði fram og Páll Hreinsson skrifaði, með leyfi forseta:

,,Yfirgnæfandi meiri hluti þeirra lagafrumvarpa sem samþykkt eru á hverju þingi stafar frá Stjórnarráðinu. Annars staðar á Norðurlöndum er það liður í starfi þeirra ráðuneyta sem fara með stjórnarfar almennt, oftast dómsmálaráðuneyta, að starfrækja sérstakar lagaskrifstofur sem hafa það hlutverk með höndum að fara yfir stjórnarfrumvörp og kanna m.a. hvort einhverjir lagatæknilegir hnökrar eru á þeim, auk þess sem kannað er hvort frumvarpið sé samrýmanlegt ákvæðum stjórnarskrár.``

Þetta er framkvæmdin, m.a. í Danmörku. Hún er hugsanlega umdeild en þetta er framkvæmdin í Danmörku fram til þessa. Þar hefur þetta gefist ágætlega. Þetta eru þeirra skoðanir og ég tel afskaplega varhugavert að gera lítið úr þeim hér í ræðustól á hinu háa Alþingi.