Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 17:27:08 (4860)

2001-02-20 17:27:08# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[17:27]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú bara þannig að hv. þm., flutningsmenn þessarar tillögu, drógu fram Norðurlöndin. Sá háttur er hafður er á í Danmörku hefur einmitt styrkt danska þingið, þetta er búið að vera áratugi í dönsku lögunum. Þetta hefur styrkt þingið þó að þetta sé til umræðu núna og byrjaði fyrst 1993 en þeir hafa reyndar ekki enn skipt um aðferð. Það er ekki hægt að draga þetta fyrst inn og benda á hvernig framkvæmdin er á Norðurlöndunum og segja síðan að þetta sé algjörlega kolómögulegt hér.

Mér finnst sjálfsagt að líta til þessa þó að ég sé ekki með því að segja að ég sé endilega sammála þeirri leið. Þetta eru skoðanir sem eru hafðar hér uppi á hinu háa Alþingi og þær ber að virða.

Það er einnig vanvirðing, finnst mér, við samþingmenn hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar þegar hann segir að stjórnarskráin sé erfiðasti andstæðingur hæstv. ríkisstjórnar. Í hæstv. ríkisstjórn eru þingmenn sem hafa svarið eið að stjórnarskránni alveg eins og við öll hin hér inni. Hvað er hv. þm. Lúðvík Bergvinsson að segja með þessu?