Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 17:28:28 (4861)

2001-02-20 17:28:28# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[17:28]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessu síðasta hefur Hæstiréttur svarað. Nú í tvígang á skömmum tíma hefur Hæstiréttur lýst því yfir að löggjöf frá þeirri ríkisstjórn sem situr standist ekki stjórnarskrána. (Gripið fram í: Hún setur ekki lög.) Það er alveg hárrétt hjá hv. þm., hún setur ekki lög. Hins vegar er um að ræða frv. sem hafa komið frá henni og farið í gegn í skjóli meiri hlutans. Það er einfaldlega þannig að framkvæmdarvaldið og þingið hafa náð saman með þeim hætti að ríkisstjórn situr ekki nema hún njóti hlutleysis eða stuðnings meiri hluta þingsins.

Ég vil lýsa því yfir, virðulegi forseti, að það er alveg fráleitt að ég hafi vanvirt viðhorf eða skoðanir annarra. Hins vegar er ég mjög ósáttur við það hvernig menn hafa talað. Í stað þess að fjalla málefnalega um frv. eins og eftir var leitað þá hafa þeir sem tilheyra meiri hluta á hinu háa Alþingi talað þannig að voðalega erfitt er að taka þá hátíðlega eða alvarlega.

Ég vil ítreka þau viðhorf sem ég setti fram áðan, að það er langt frá því til þess fallið að styrkja þingið sérstaklega að hæstv. dómsmrh. eða hæstv. forsrh. fái einhvern kontór undir sinn hatt. Enda er það svo að um stöðu mála í Danmörku, sem hv. þm. vísaði til, hefur verið mjög hart deilt. Það er vitaskuld á sömu forsendum og er hér deilt.