Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 17:52:38 (4864)

2001-02-20 17:52:38# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[17:52]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst um það sem hæstv. forseti þingsins talaði um síðast, hvort tillögur Samfylkingarinnar stæðust stjórnarskrá. Já, það gera þær. Það er mín trú og reyndar niðurstaða lögfræðinga sem við létum skoða tillögur okkar.

Það er algjör útúrsnúningur og della sem hæstv. forseti þingsins var að segja hér, að við ætluðum okkur að láta taka allar veiðiheimildir af einhverjum tilteknum aðilum. Við leggjum til að komið verði á kerfi þar sem jafnræðis sé gætt og allir hafi sama rétt til að nálgast veiðiheimildir. Þeir sem verða veiðheimildalausir í slíku kerfi eru þeir sem ekki eru samkeppnisfærir. Frá þeim er ekkert tekið heldur eru þeir ekki samkeppnisfærir og geta ekki náð sér í veiðiheimildir á eðlilegum grundvelli í samkeppni við aðra. Ég ætla ekki að svara því öðruvísi.

Hæstv. forseti talaði um að ég hefði lítið talað um málið sem hér er á dagskránni. Ég talaði almennt um ástæður þess að þetta mál er hér til umræðu. Ég talaði um ástæðurnar fyrir því að hér liggja fyrir fleiri keimlík mál á dagskrá þingsins. Hæstv. forseti þyrfti að velta því vandlega fyrir sér hvort ekki sé eitthvað að hjá honum, á þessu höfuðbóli, þegar menn sjá ástæðu til að flytja allar þessar tillögur og reyna að lagfæra með hvaða hætti er gengið hér um garða. Þegar menn eru nýstaðnir upp úr harðvítugum deilum um hvernig farið er með lög og rétt í landinu, um hv. Alþingi og samskipti þess við Hæstarétt og annað því um líkt þá ætti hæstv. forseti a.m.k. að virða mér það til vorkunnar þó ég tali almennt um það mál.