Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 17:56:15 (4866)

2001-02-20 17:56:15# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[17:56]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. forseti þingsins talar hér um að það yrðu til eyðibyggðir einhvers staðar. Ég hef stundum nefnt það að stefna þeirra stjórnvalda sem nú sitja sé eyðibyggðastefna. Það hefur auðvitað ekki farið fram hjá hæstv. forseta þegar hann fer um sitt kjördæmi og önnur líka að þar eru byggðarlög illa stödd vegna þess kerfis sem nú er í gangi.

Það sem við leggjum til er að í framtíðinni hafi menn frjálsræði til að nálgast veiðiheimildir og stunda sjó. Það kemur einfaldlega ekki út með sama hætti og hæstv. forseti lýsti hér áðan heldur munu þær byggðir sem best liggja við sjónum aftur fá þá aðstöðu sem skapaði þær byggðir og varð til að þær urðu til.

Ég ætla hins vegar að segja það um þessa umræðu að mér finnst með eindæmum hve hæstv. forseti hefur verið viðkvæmur. Mér varð á að nefna hér bréfaskriftir hans til Hæstaréttar og gagnrýna þær. Ég tel að full ástæða hafi verið til að gera það og þörf á að fara yfir það. Ég tók grannt eftir því að hæstv. forseti var ekki tilbúinn að lýsa því yfir að hann væri hættur þessum bréfaskriftum og mundi ekki gera þetta aftur. Ég held að það sé ástæða til þess að hæstv. forseti haldi sig við umræðuefnið ekkert síður en ég og svari því hvort hann ætli að halda þessum bréfaskriftum áfram eða hvort þetta hafi bara verið einbert slys sem henti hann í skammdeginu í vetur.