Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 18:07:01 (4868)

2001-02-20 18:07:01# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[18:07]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst margt mjög áhugavert koma fram í ræðu hv. þm. og mér fannst allt annar tónn í henni en í mörgum öðrum sem hafa verið fluttar í dag. Hv. þm. rakti m.a. hvaða hugmyndir hann hefði, hvernig hann vildi sjá Alþingi vinna betur að þeirri framkvæmd sinni að setja lög og ég get tekið undir margt af því sem kom fram í máli hv. þm.

Ég vildi þó aðeins gera athugasemdir við það sem kom fram í upphafi máls hans þar sem hann vísaði til þess að ef lagaráðið setti almennar reglur um hvernig ætti að standa að undirbúningi mála hefði það hugsanlega í för með sér að það bryti ákvæði stjórnarskrár og vitnaði þar til 38. gr. um að menn gætu ekki lagt fram mál. Nú er alveg ljóst að yrði þetta að lögum þá gengur þetta ákvæði vitaskuld ekki framar stjórnarskrá. Í öðru lagi er sú hugsun sem býr að baki því sem þarna er sagt fyrst og fremst sú að settar yrðu og gerðar opinberar almennar reglur um það hvernig menn gætu unnið að lagasetningu og samningu laga þannig að vel færi. Vitaskuld eru einungis ráðgefandi reglur og ekki á neinn hátt bindandi enda hefði ráðgefandi ráð aldrei lagasetningarhlutverk, hvað þá að það gæti farið í buxur stjórnarskrárgjafans þannig að það er alveg ljóst að aldrei yrði um að ræða árekstur á milli þessara ákvæða.