Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 18:13:04 (4872)

2001-02-20 18:13:04# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[18:13]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir:

Herra forseti. Þetta hefur verið athyglisverð umræða að mínu mati í dag og skemmtileg. En ég ætla ekki eins og m.a. hv. þm. stjórnarandstöðunnar að fara að draga ræðumenn í dilka og segja hverjir hafi verið málefnalegir og hverjir ekki. Mér finnst þetta hafa verið mjög fróðleg, athyglisverð og eftirtektarverð umræða og margt gott komið fram. Hér hafa skoðanir verið viðraðar sem eru umdeilanlegar en ég virði þær í hvívetna þó að ég sé ekki sammála þeim.

Ég held að ég geti fullyrt að allir hv. þm. á hinu háa Alþingi vilja bæta, styrkja, efla og gera alla lagasetningu markvissari en hún er í dag. Ég er ekki þar með að segja að hún sé ómarkviss. En hana má bæta. Ég held að við getum öll verið sammála um það. En það hefur gríðarlega gott starf verið unnið á undanförnum áratug eða svo. Vil ég m.a. benda á að ég held að það hafi verið tveir lögfræðingar starfandi á nefndasviði Alþingis fyrir rúmum áratug. Núna eru þeir sjö og mér skilst að þeim fari fjölgandi, allt í þágu þess að efla, styrkja og bæta löggjöfina.

[18:15]

Hér er til umræðu svokallað frv. til laga um lagaráð. Hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir, 1. flm. þessa frv., talaði m.a. um það í framsöguræðu sinni að meginhlutverk lagaráðs væri að vera fyrirbyggjandi leið fyrir þingmenn í störfum þeirra við að móta og merkja sér lagasetninguna. En enn höfum við ekki fengið svör við því hvernig á því verði tekið ef þingmenn fara síðan ekki eftir því sem þetta lagaráð mælir með. Hv. þm. Pétur Blöndal benti m.a. á að þetta gæti hugsanlega verið notað í einhverjum pólitískum hráskinnaleik. Ég veit það ekki. Ég þarf ekki endilega að vera sammála því. En þetta er ein ábending því að á endanum er það þannig að þingmenn eru bundnir af sannfæringu sinni og samvisku þegar upp er staðið og það eru þeir sem hafa umboð fólksins til þess að greiða atkvæði, ekki lagaráð.

Ég get tekið undir að oft og tíðum koma lagatæknileg vandamál upp við setningu laga. Það er í rauninni það annars vegar sem við erum að reyna að koma í veg fyrir að gerist, þ.e. að upp komi lagalegir vankantar á sjálfum lögunum og síðan hitt að löggjöf stangist á við stjórnarskrá.

Hvað er þá til ráða til þess að koma í veg fyrir að þetta vandamál komi upp við setningu laga þannig að minna verði um svokölluð lagatæknileg vandamál? Við getum farið þá leið sem er í frv., þ.e. að stofna svokallað lagaráð. Eflaust eru einhverjir kostir í því fólgnir sem eru m.a. tilteknir í greinargerð með frv. Ég er reyndar ekki alveg sammála því sem kemur þar fram en við getum tekið þá umræðu frekar m.a. þegar frv. kemur til hv. allshn. Lagaráð getur líka verið þunglamalegt því að mínu mati eru helstu kostir þeirrar framkvæmdar sem við höfum í dag og við megum alls ekki vanmeta, að þetta er sveigjanlegt kerfi. Við erum tiltölulega fljót að bregðast við ákveðnum vandamálum sem koma upp hverju sinni. Þetta er m.a. það sem þingmenn hjá Evrópusambandinu hafa verið að kvarta undan, t.d. innan Evrópusambandsþingsins sem slíks, að það sé allt of þunglamalegt og ekki nægilega fljótt að bregðast við og einnig hafa m.a. norskir þingmenn og danskir þingmenn viðrað það við mig varðandi sín eigin þjóðþing. Ég er því hrædd um að lagaráð eins og það birtist í þessu frv. gæti verið ansi þungt í vöfum og auk þess, eins og ég benti á, er ekkert sem tryggir það að þingmenn fari síðan eftir þeim ábendingum sem þeir ágætu herrar sem eiga að skipa lagaráð mundu setja fram.

Hver er önnur leiðin? Það er hugsanlega lagaskrifstofur sem hér hafa verið nefndar. Það eru ágætis hugmyndir líka. Það er ekkert að þeim. Þá eru það lagaskrifstofur í Stjórnarráðinu, sem annars vegar má hugsa sér í forsrn. eða í dómsmrn. Það er mjög mismunandi hversu sjálfstæðar slíkar lagaskrifstofur eru og spurning hvort þær yrðu beint undir Stjórnarráðinu eða sjálfstæðar, eins og er í Noregi, en í rauninni heyra engu að síður undir þingið.

Bent hefur verið á, og er það m.a. röksemdin fyrir því að leggja þetta frv. fram, að meinbugir hafi verið á íslenskri löggjöf, að einhverjir hnökrar hafi verið á íslenskri löggjöf á síðustu árum og bent hefur verið á skýrslu umboðsmanns Alþingis. En það hafa ekki verið miklir og margir hnökrar á danskri löggjöf og eflaust má þakka þessari lagaskrifstofu innan stjórnarráðsins það. Því finnst mér miður ef það á að afskrifa strax þá hugmynd að hafa lagaskrifstofu innan Stjórnarráðsins þar sem hún hefur gefist vel og það hefur verið vitnað í það að í Danmörku og á fleiri stöðum eru gallar á löggjöf mun færri en hér. Eitthvað hlýtur þá sú lagaskrifstofa að hafa gert þrátt fyrir að vera í stjórnarráðinu þar. Þetta er ein leiðin. Fyrsta leiðin er lagaráð, önnur leiðin er lagaskrifstofa og síðan er þriðja leiðin sem ég tel að við ættum að huga betur að því ég vil að við skoðum alla þessa möguleika og vil engan veginn útiloka einn kost umfram annan. Þetta eru allt athyglisverðar tillögur að mínu mati, m.a. sú sem ég vil leggja hér fram. Við verðum að skoða þetta mál heildstætt og ekki einhenda okkur í einn kostinn.

Þriðji kosturinn er mjög fýsilegur að mínu mati, þó eflaust geti verið einhverjir gallar á honum líka, en það er að efla nefndasviðið enn frekar. Það hefur verið gert eins og ég benti á áðan. Við höfum fjölgað lögfræðingum á því sviði. Umboðsmaður Alþingis skrifaði álit 1997 og benti á galla í lögum. Mér þætti fróðlegt að kanna einmitt tímabilið frá 1997 fram til dagsins í dag því að einmitt á þessu tímabili hefur þingstarfið, nendasviðið og fleira, verið eflt mjög mikið. Ég held einmitt að verðum að líta mjög vel til þessara nýliðnu ára.

Hvað er hægt að gera? Það er hægt að efla nefndasviðið enn frekar og það má alveg kalla það lagaskrifstofu þess vegna innan nefndasviðsins. Það er ágætt svo lengi sem starfsemi þess verði efld.

Í frv. er einmitt tekið á þessu og í greinargerðinni segir m.a., með leyfi forseta:

,,Sem dæmi má nefna misræmi eða árekstra milli lagaákvæða, prentvillur, óskýran texta, að gerður sé að lögum mismunur á milli manna án þess að til þess hafi staðið viðhlítandi rök og að ákvæði laga séu ekki í samræmi við stjórnarskrá ...``

Ég held einmitt að þarna sé munurinn sem ég gat um í upphafi. Þarna er annars vegar um lagatæknilegt vandamál að ræða sem við eigum að geta tekist á við, hvort heldur í formi þess að koma á fót lagaráði, setja á stofn lagaskrifstofu innan Stjórnarráðsins eða innan þingsins og ég vil endilega að sá kostur verði skoðaður betur.

Síðan er hitt. Hvað gerum við til þess að koma í veg fyrir að lög stangist á við stjórnarskrá? Nefndir hafa verið stjórnlagadómstólar og ég get tekið undir það með 1. flm. þessa máls að mér finnst það ekki fýsilegur kostur. Ég held að það sé einfaldlega allt of stór biti fjárhagslega. Ekki virðist mega tala um fjárhagslegar skuldbindingar í þessu máli, það má skilja það á hv. þm. stjórnarandstöðunnar. Þó vil ég einmitt nefna það varðandi stjórnlagadómstólinn að við erum einfaldlega of fá og það yrði of stór biti fyrir okkur að koma á fót slíkri stofnun sem það yrði auðvitað. Ég vil því útiloka þann kost en um leið taka undir þá hugmynd sem hv. þm. Pétur Blöndal minntist á áðan í ræðu sinni, þ.e. að Alþingi geti á einhvern hátt skotið ákveðnum málum til Hæstaréttar þannig að t.d. hreinn meiri hluti Alþingis eða aukin meiri hluti geti skotið þangað ákveðnum málum, deilumálum, sem hugsanlega stangast á við stjórnarskrána og þá taki Hæstiréttur á þeim, fullskipaður, með níu mönnum, ekki sjö heldur níu mönnum og ef Hæstiréttur telur að viðkomandi lagafrv. eða lagabálkur komi til með að stangast á við stjórnarskrána þá þyrfti jafnframt aukinn meiri hluta Hæstaréttar, sex af níu.

Þetta eru allt atriði sem mér finnst að hið háa Alþingi eigi að skoða betur, ekki útiloka neinn kost. En við verðum að ræða þessi mál á breiðum grundvelli með það markmiði að efla og bæta og styrkja löggjöfina og þá um leið réttaröryggið í landinu. Ég vil undirstrika að þingið er sífellt að bæta starfsemi sína. Það hefur verið að gera það á undanförnum árum. Það eflir líka réttaröryggi landsmanna. Það er liður í því að efla það þannig að þetta stendur allt til bóta. Allir hv. þm. hér inni vilja einmitt styrkja og efla lýðræðið sem mest þeir geta. Þessi umræða er liður í því. En ég vil einnig geta þess að við eigum ekki að breyta eingöngu breytinganna vegna. Við verðum að gera það markvisst. Þetta frv. er eflaust ágætis hugmynd en ég sé hana ekki fullskapaða eins og margoft hefur komið fram hér í umræðum. Þetta er engu að síður ágætis innlegg í umræðuna um að bæta löggjöfina.